Undanhald í Bandaríkjunum

Bandaríski bílsmiðurinn General Motors (GM) er hættur að birta mánaðarlega sölutölur.

Sérfræðingar um bandaríska bílamarkaðinn ganga samt út frá því að GM hafi selt færri bíla í júlí eins og allir aðrir helstu bílsmiðir.

Þannig dróst sala Ford á heimamarkaði sínum saman um 3,1% og sölusamdráttur Toyota þar í landi var 2,1%. Nissan galt hálfgert afhroð með 15,2% samdrætti og sala Honda var 8,2% minni.

Einungis Fia-Chrysler bætti við sig eða um 6% og er það fyrst og fremst að þakka velgengni Jeep jeppans, en sala hans jókst um 16%, frá í sama mánuði í fyrra.
 
Við þetta má bæta að bílaframleiðsla dróst saman um 5,5% í júní í Bretlandi. Samdrætti á breska bílamarkaðinum er kennt um en framleiðsla fyrir hann var 50% minni en í sama mánuði fyrir ári. Af allri bílafarmleiðslu í Bretlandi voru 80% flutt út. Vaxandi bílasala á meginlandinu hefur því komið breskri bílsmíði til góða því frá áramótum er samdrátturinn í breskri bílaframleiðslu aðeins 3,3%.

mbl.is