BMW innkallar 324 þúsund bíla

BMW staðfesti í gær, að 323.700 bílar yrðu innkallaðir í ...
BMW staðfesti í gær, að 323.700 bílar yrðu innkallaðir í Evrópu vegna bílgalla sem leitt gæti til elds í vél bílanna. AFP

Þýski lúxusbílasmiðurinn BMW hefur ákveðið að innkalla 323.700 dísilbíla í Evrópu vegna bílgalla sem leitt gæti til þess að eldur kvikni í vélum bílanna.

Tæplega þriðjung bílanna innkölluðu er að finna í Þýskalandi, eða 96.300. Í Bretlandi munu þeir vera 75.000 talsins.  

Hinn meinti tæknigalli hefur leitt til 27 vélarbruna í BMW dísilbílum í Suður-Koreu. Sagðist BMW á mánudag ætla innkalla 106.000 bíla þar í landi vegna sjálfsíkveikjanna. Kemur hún til framkvæmda 20. ágúst en rót vandans mun vera galli í útblásturskerfi bílanna. 

Í Suður-Kóreu hafa 13 eigendur BMW-bíla hafið lögsókn á hendur þýska bílsmiðnum. Segjast þeir ekki geta brúkað bíla sína af ótta við að í þeim kviknaði.   

Í Evrópu nær innköllunin til fjölda einstakra módela. Annars vegar bíla með fjögurra strokka dísilvél sem smíðaðir voru á tímabilinu frá apríl 2015 til september 2016. Einnig bíla með sex strokka vélum sem smíðaðir voru frá júlí 2012 til júní 2015.

mbl.is