Ótímabært andlát

Vettvangur árekstursins og átaka ökumannanna.
Vettvangur árekstursins og átaka ökumannanna.

Segja mætti að dauði tveggja manna í Norður-Kaliforníu hafi verið ótímabær, en það var afleiðing ágreinings þeirra útaf árekstri á Interstate 5 hraðbrautinni.

Bifreiðar mannanna rákust saman um miðja nótt á norðurakreinum brautarinnar, við afrein um 16 kílómetra frá borginni Sacramento.

Námu báðir staðar og upphófst fljótt rifrildi um hvor þeirra bar sök á samstuðinu. Snerist það upp í handalögmál en meðan á þeim stóð greip annar mannanna áhald og lét höggin dynja á andstæðingi sínum með þeim afleiðingum að hann beið bana, að sögn lögreglu.

Að því loknu hugðist banamaðurinn hverfa til baka til bíls síns úti á miðri brautinni en gekk  í leiðinni í veg fyrir aðvífandi bíl sem ók á hann með þeim afleiðingum að maðurinn beið bana.  

„Átök reiðra bílstjóra á þjóðvegunum eru tiltölulega algeng, bæði af völdum samstuðs og þjóðvegaæðis.  Venjulega þó ekki úti á miðjum vegi eins og hér,“ sagði lögreglumaður á vettvangi slyssins við FOX40-stöðina.

Hann sagði að koma hefði mátt í veg fyrir átökin og afleiðingar þeirra með því einu að ökumennirnir hefðu einfaldlega kallað lögreglu á vettvang eftir áreksturinn. „Ríki ágreiningur milli bílstjóra þá er það okkar fag að fást við það,“ bætti hann við.

mbl.is