Tugir sögulegra Porsche sýndir

Fallegar línur og framandi tónar sameinast í Brimhúsinu á Menningarnótt
Fallegar línur og framandi tónar sameinast í Brimhúsinu á Menningarnótt

Efnt verður til sportbílasýningar og listgjörninga í Brimhúsinu við Geirsgötu á Menningarnótt fyrir tilstuðlan  Bílabúðar Benna.

Í fréttatilkynningu frá Porsche-klúbbnum á Íslandi kemur fram að í tilefni af 70 ára afmæli sportbílasmíði Porsche standi félagið fyrir glæsilegri sýningu á tugum sportbíla í Brimhúsinu á Menningarnótt.

Þar verða til sýnis fágæt eintök af Porsche sem endurspegla jafnt gamla sem nýja tíma í sögu fyrirtækisins.

Porsche sportbílasýningin stendur frá klukkan 13 til 19 á morgun, laugardag. Í takt við tilefnið bjóða listamenn upp á einstaka tónlistargjörninga á staðnum yfir daginn.

Þar á meðal mun slagverksmeistarinn Helgi Svavar Helgason magna upp eggjandi takta á húdd, þak og felgur virðulegrar Porsche bifreiðar klukkan 14:00, 14:15 og 14:30.

Síðar um daginn, klukkan 15:45, tekur tónlistarmaðurinn Högni Egilsson sér víólu í fang og seiðir fram töfrandi tóna sem hann blandar sinni eigin himnesku söngrödd.

mbl.is