Nýr bíll á 600 milljónir

Buggatti Divo undir seglinu. Ýmsar útlínur koma greinilega fram.
Buggatti Divo undir seglinu. Ýmsar útlínur koma greinilega fram.

Bugatti mun afhjúpa og frumsýna nýjan ofurbíl  um komandi helgi á eðalbílahátíðinni í Monterey í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum.

Um nýliðna helgi birti franski bílsmiðurinn nokkrar upplýsingar um nýja eðalbílinn, þar á meðal verðmiðann á honum. Hann verður ekki af ódýrari gerðinni.

 Ennfremur gefa myndir af honum undir hulum vissar hugmyndir um hlutföll bílsins og útlitið. Svo virðist sem á honum aftanverðum sé stór stöðugleikauggi auk áberandi vængs.

Til að sjá herlegheitin verða áhugasamir hins vegar að bíða frumsýningarinnar 24. ágúst nk.

Bíllinn er nefndur eftir franska kappakstursmanninum Albert Divo sem vann hinn fræga Targa Florio kappakstur 1928 og 1929  fyrir Bugatti. Þá sýnist axlalínan fara hækkandi aftur með hliðunum.

Divo verður af léttari gerðinni og mikið lagt upp úr vængpressu yfirbyggingarinnar. Hann er hugsaður til notkunar á almennum vegum en ekki bara kappakstursbrautum. Hann verður búinn 1479 hestafla 8,0 lítra W16-vél með fjórfaldri forþjöppu.

Bugatti Divo verður framleiddur í afar litlu upplagi, aðeins 40 eintök verða smíðuð. Það verður þó ekki á hvers manns færi að eignast eintak því það mun kosta sem svarar 600 milljónum íslenskra króna.

mbl.is