Frá Póllandi til Japans á nýjum Leaf

Á leiðinni hlóð Kaminski bílinn alls 53 sinnum. Að meðaltali …
Á leiðinni hlóð Kaminski bílinn alls 53 sinnum. Að meðaltali ók hann um 250 km á dag.

Ævintýramaðurinn og pólfarinn Marek Kaminski er þessa dagana staddur í Japan, þangað sem hann er nýkominn akandi á nýjum Nissan Leaf eftir 16 þúsund kílómetra ferðalag frá Zakopane í Póllandi. Innan fárra daga leggur hann aftur stað til baka.

Leið Kaminskis lá um átta lönd og tvær heimsálfur. Frá Póllandi lá leiðin til Litháen, þaðan sem ekið var áfram til Hvíta-Rússlands, Rússlands, Mongólíu, Kína og Suður-Kóreu uns komið var til Tokyo í Japan. Á leiðinni hlóð Kaminski bílinn alls 53 sinnum. Að meðaltali ók hann um 250 km á dag en lengsta dagleiðin var 493 km með einni viðkomu á hleðslustöð.

Engin fingraför

Kjörorð ferðalagsins var „Engin fingraför“ eða „no trace left behind“ til að vekja athygli á umhverfismildari ferðavenjum sem hentað geta milljónum ökumanna um allan heim með akstri á 100% rafbíl. Með ökuferð sinni vildi Kaminski sýna að hægt sé að ferðast á rafbíl til fjarlægra og einangraðra áfangastaða um víða veröld án þess að skaða loftgæði jarðar með losun koltvísýrings.

Marek Kaminski hefur bæði ferðast til Norður- og Suðurpóls jarðar á innan við einu ári og sagði hann við komuna til Tokyo að ökuferðin yrði án efa jafn eftirminnileg og pólarferðirnar. Víða voru vegirnir í döpru ásigkomulagi, holóttir og blautir, ekki síst í Rússlandi og Mongólíu auk þess sem torsótt reyndist að hlaða bílinn á fámennum og einangruðum stöðum.

Bíll Kaminskis er búinn nýrri 40 kWh rafhlöðu sem hefur um 270 km raundrægni samkvæmt nýja mælistaðlinum WLTP. „Bíllinn hentar því ákaflega stórum hópi bíleigenda sem að jafnaði aka mun skemmri vegalengdir en sem þessu nemur auk þess sem flest lönd, sérstaklega í Evrópu, eru að gera stórátak í tengingu hleðslustöðva fyrir rafbíla við alla helstu þjóðvegi landanna,“ segir í tilkynningu.

Ekur aftur heim til Póllands

Nissan Leaf rafbíllinn á leiðarenda í Japan eftir 16.000 km …
Nissan Leaf rafbíllinn á leiðarenda í Japan eftir 16.000 km ferðalag frá Póllandi.


Kaminski segir þar nýjan Leaf henta sér persónulega mjög vel enda sé hann bæði mjög þægilegur og skemmtilegur í akstri og búinn háþróuðum tæknibúnaði á sviði þæginda og öryggis. „Fyrir mér var ferðalagið þó fyrst og fremst kjörið tækifæri til að sýna að bílnotkun getur verið mun umhverfismildari en gengur og gerist hjá flestum. Bílaskipti yfir á 100% rafbíl eru einföld en mjög árangursrík leið til þess. Bíllinn reyndist mjög áreiðanlegur á ferðalaginu enda ætla ég að aka honum aftur heim til Póllands.“

Víða á netinu má lesa nánar um ferðalag Kaminskis með leitarorðinu #NoTraceExpedition.

Nissan LEAF er mest seldi hreini rafbíllinn á markaðnum, en rúmlega 340 þúsund eintök hafa verið nýskráð frá árinu 2010 þegar almenn sala hófst. Meira en 41 þúsund eintök af annarri kynslóð Leaf hafa verið nýskráð í Evrópu frá því að bíllinn fór í sölu í október 2017. Mikil eftirspurn er eftir bílnum víða um heim, þar á meðal hér á landi, enda eftirspurnin talsvert yfir væntingum Nissan sem vinnur að aukinni afkastagetu verksmiðjunnar í Sunderland í Bretlandi þar sem Leaf er framleiddur fyrir Evrópumarkað.

mbl.is