Panta bíl sem kemur á götuna 2020

Fyrstir neytenda í heiminum eru Norðmenn byrjaðir að skrá sig fyrir rafbílnum BMW iX3 og greiða staðfestingargjald. Smíði á bílnum verður þó ekki hafin fyrr en eftir tvö ár.

Þessi forréttindi Norðmanna skýrast af sterkri stöðu rafbíla í Noregi og markaðurinn þar hinn álitlegasti. Nái iX3-bíllinn góðri fótfestu þar ætti eftirleikurinn á öðrum mörkuðum að verða auðveldari.

Staðfestingargjaldið sem greiða verður við pöntun er 15.000 norskar eða sem svara til um 200.000 íslenskra króna.

Rafmótorinn í BMW iX3 verður 270 hestöfl og rafgeymirinn 70 kílóvattstunda. Drægi bílsins er áætlað á fimmta hundrað kílómetrar samkvæmt nýju WLPT viðmiðununum. Rafgeymirinn er gerður fyrir 150 kílóvatta hraðhleðslu sem fylla ætti geyminn á um hálftíma.

mbl.is