Bílasala steytir á hraðahindrun

Nýsmíðaðir bílar á verksmiðjulager þýska bílrisans Volkswagen (VW) í Emden …
Nýsmíðaðir bílar á verksmiðjulager þýska bílrisans Volkswagen (VW) í Emden í Þýskalandi. AFP

Eftir tæplega tíu ára vöxt í bílasölu  á heimsmarkaði er hún tekin að skreppa saman, í fyrsta sinn eftir alþjóðlegu fjármálakreppuna.

Meðal ástæðna þessa segir blaðið Wall Street Journal vera óvissu um framtíðar viðskiptastefnu Bandaríkjanna. Einnig sé farið að gæta samdráttar í eftirspurn eftir bílum.

Samdráttur er farinn að sýna sig á stærsta einstaka bílamarkaði heims, Kína. Og í Bandaríkjunum sé markaður fyrir fólks- og flutningabílum mettur eftir sjö ára vöxt í röð. Er það meðal annars rekið til viðskiptastríðs Bandaríkjamanna og Kínverja.

Blaðið segir að eftirspurn eftir nýjum bílum í Evrópu hafi minnkað og það muni bitna hart á evrópskum bílsmiðum og afkomu þeirra. Fyrirtækin glími við hækkun á stáli og áli til bílaframleiðslu og strangari kröfur um losun gróðurhúsalofts.

Wall Street Journal kemst að þeirri niðurstöðu, að viðskiptapólitík Donalds Trumps forseta Bandaríkjanna hafi dregið úr tiltrú neytenda á bílamarkaði. Stefna hans ógni hagvexti víða um jarðir. Sérfræðingar blaðsins segja, að drægi úr spennunni milli Bandaríkjamanna og helstu viðskiptalanda þeirra gæti það komið í verg fyrir niðurskurð í ranni bílafyrirtækjanna. Ella sé hættan sú, að allsherjar viðskiptastríð geri útaf við bílaframleiðsluna í þeirri mynd sem hún nú er.

Tollar á bandarískar í Evrópu gætu orðið að veruleika. Kínverjar hafa brugðist við aðgerðum stjórnar Trumps og svarað með 40% tolli á bíla sem fluttir eru inn frá Bandaríkjunum.

mbl.is