Annars konar aflgjöf í uppsveiflu

PHEV stendur fyrir Plugin Hybrid Electric Vehicle, eða tengiltvinnbíl.
PHEV stendur fyrir Plugin Hybrid Electric Vehicle, eða tengiltvinnbíl.

Bílar með annarri aflgjöf en hefðbundinni brunavél eru í mikilli uppsveiflu í Evrópu það sem af er ári.

Á sama tíma hefur sala bíla með brunavél dregist saman eða staðið í stað þegar á heildina er litið.

Á tímabilinu frá janúar til júníloka seldust rúmlega 600.000 bílar með annars konar orkugjöf, sem er 34% aukning frá árinu 2017.

Mest jókst sala svonefndra tengiltvinnbíla eða um 46%, að sögn samtaka bifreiðasmiða í Evrópu (ACEA). Í Noregi varð 58% aukning í þessum flokki en þar í landi er rafbílavæðing lengra á leið komin en nokkurs staðar annarsstaðar.

Í Þýskalandi seldust samtals um 88.000 bílar annarrar aflgjafar en með brunavélar eingöngu.

Í Evrópu varð heildarskipting nýskráðra bíla eftir aflgjöf sem hér segir: með bensínvél 56,7 %, með dísilvél 36,3 % og með öðrum aflgjöfum 7 %.

mbl.is