Sagður hraðskreiðastur allra jeppa

Von er á nýjum jeppa að nafni Lister LFP úr ranni Jaguarverksmiðjunnar. Talað er um að þar verði á ferðinni hraðskreiðasti jeppi heims.

Ekki hafa verið birtar opinberar upplýsingar bílsmiðsins um Listerinn. Spurst hefur út að hann verði með 670 hestafla vél og komist í hundraðið 3,5 sekúndum eftir að hafa lagt af stað úr  kyrrstöðu. Þá mun topphraði bílsins verða 322 km/klst.

Verðið verður svipað og á Jaguar F-Type eða frá 140.000 pundum, eða um 21 milljónir króna.

Hermt er að fyrstu kaupendur fái bíla sína í október nk.

mbl.is