Glæsilegur 300 milljóna Lamborghini-floti á ferð um götur Íslands

Urus var fyrst kynntur í fyrra en kom á markaðinn …
Urus var fyrst kynntur í fyrra en kom á markaðinn 2018. Heitið Urus er dregið af forföður nútíma nautgripa. mbl.is/Árni Sæberg

Sjö ítalskir Lamborghini-lúxussportjeppar af gerðinni Lamborghini Urus eru nú hér á landi, hver að andvirði nærri 40 milljónir íslenskra króna. Heildarvirði bílaflotans er því nálægt þrjú hundruð milljónum króna.

Tilefnið er kynning á bílunum fyrir erlenda bílablaðamenn, sem koma hingað víða að í nokkrum hópum, fyrst frá Evrópu, þá frá Skandinavíu og þriðji hópurinn kemur frá Bandaríkjunum.

Í eigu Volkswagen

Lamborghini-bílaverksmiðjurnar eru í eigu þýska bílarisans Volkswagen, sem er einmitt ástæðan fyrir því að það er Hekla, umboðsaðili Volkswagen á Íslandi, sem hefur milligöngu um komu lúxusbílanna hingað til lands og aðstoðar við skipulagningu prufuaksturs á íslenskum vegum.

Lamborghini hefur lengi verið þekkt fyrir stórglæsilega og kraftmikla sportbíla, sem aðeins þeir efnameiri hafa átt kost á að eignast. Er framleiðsla á jepplingum því talin vera tilraun bílaframleiðandans til að teygja sig til stærri markhóps, og meðal annars mun vera horft sérstaklega til landa eins og Rússlands, Indlands og Kína í þeim efnum.

Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, segir í samtali við Morgunblaðið að allt í allt komi hingað til lands hátt í 20 bílablaðamenn.

„Þetta er glæsilegur bíll, hátt í 700 hestöfl,“ segir Friðbert.

Áhugasamir gætu pantað Urus til Íslands með milligöngu Heklu.
Áhugasamir gætu pantað Urus til Íslands með milligöngu Heklu. mbl.is/Árni Sæberg

Hægt að útvega bíla


Aðspurður segir Friðbert að Hekla geti ekki verið með Lamborghini-bíla á lager hér á landi, en lítið mál sé að útvega slíka bíla fyrir áhugasama, vegna tengingarinnar við Volkswagen. „Það er ekki hlaupið að því að hafa Lamborghini á lager hér á landi því þeir þurfa svo þróaða þjónustu og sérhæfða viðgerðarmenn. Það er ekki fyrir hvern sem er að opna húddið á svona tryllitæki. Það er ánægjulegt að segja frá því að við erum með góða samstarfsaðila sem eru með mikla þekkingu á að þjónusta þessa ofursportbíla og halda þeim á götunni. Það eru því hæg heimatökin að útvega þá ef áhugi er fyrir hendi.“ tobj@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: