Renault kynnir rafdrifinn ódýran smájeppling

Á bílasýningunni í París sem nú stendur yfir kynnti forstjóri og stjórnarformaður fyrirtækisins, Carlos Ghosn, m.a. nýjan og lítinn rafdrifinn smábíl fyrir alþjóðamarkað sem boðinn verður á sérstaklega hagstæðu verði.

Bíllinn heitir Renault K-ZE og fer á markað í Kína á næsta ári og í kjölfarið á aðra markaði heims.

Renault K-ZE er lítill 100% rafbíll sem hannaður er í sportlegu útliti jepplings. Drægi rafhlöðu jepplingsins verður rúmir 200 km í venjulegum daglegum akstri. Bíllinn er með tvöfalt hleðslukerfi sem auðveldar ökumanni að nýta mismunandi hleðsluaðstæður. Þá verður hann búinn ýmsum nýjustu tæknilausnum Renault, svo sem bakkskynjurum og bakkmyndavél auk leiðsögukerfis og nettengingar.

Sérsniðinn fyrir notkun í þéttbýli

„Kína er í dag sá markaður heims þar sem fjölgun rafbíla er lang hröðust. Af þeim ástæðum fer Renault K-ZE fyrst á markað þar í landi þar sem hann verður framleiddur í verksmiðju e-GT New Energy Automotive Co, nýju fyrirtæki í eigu Dongfeng Motor Group og Nissan sem sérstaklega er ætlað að þróa og framleiða bíla sérsniðna að þörfum Kínverja.

Í kjölfarið verður hann markaðssetur á öðrum mörkuðum heims enda fastlega búist við því að hann henti stórum hópi neytenda sem vilji hafa val um ódýran og hagkvæman rafbíl í smábílaflokki sem sé sérsniðinn fyrir notkun í þéttbýli,“ segir í tilkynningu.

mbl.is