Toyota innkallar 2,4 milljónir tvinnbíla

Prius bílar renna af færiböndum í samsetningarsmiðju Toyota í Toyota …
Prius bílar renna af færiböndum í samsetningarsmiðju Toyota í Toyota City í Japan. AFP

Toyota hefur ákveðið að innkalla 2,43 milljónir tvinnbíla um heim allan vegna bilana sem lýsa sér í því að aflrásin slekkur óvænt og fyrirvaralaust á sér.

Toyota segir að um fá tilvik sé að ræða en í þeim tilfellum hefur bifreiðin ekki getað ekið áfram, misst afl og drepið á sér. Aflstýrið og bremsukerfi hafi virkað áfram en dræpi aflrásin á sér á miklum hraða myndi hætta á ákeyrslu aukast.

Að sögn Toyota nær innköllunin til Prius og Auris tvinnbíla sem framleiddir eru á tímabilinu frá október 2008 til nóvember 2014. Toyota segist munu uppfæra hugbúnað sem eigi að ráða bót á vandanum. Verður sú uppfærsla eigendum bílanna að kostnaðarlausu.

mbl.is