Hreinsar göturnar hljóðlaust

Friðrik Ingi Friðriksson.
Friðrik Ingi Friðriksson. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Rafmagnsgötusóparnir frá Schmidt minnka útblástursmengun og raska ekki ró íbúa. Litla rafdrifna beltavélin getur nýst sem hjólastóll sem kemst auðveldlega yfir urðir og grjót. 

Það er ekki bara á fólksbílamarkaði sem framleiðendur hafa náð góðum árangri við að skipta bensín- og díselvélum út fyrir rafhlöður og rafmótora. Framleiðendur vinnuvéla eru líka í vaxandi mæli farnir að bjóða upp rafdrifin tæki sem m.a. hafa þá kosti að vera mjög hljóðlát og framleiða engan útblástur.

Friðrik Ingi Friðriksson hjá Aflvélum hefur fylgst með þessari þróun og segir hann að á vinnuvélasýningum erlendis séu rafdrifin tæki orðin áberandi og spanni alla flóruna allt upp í risavaxnar gröfur. „Tæknin er enn á byrjunarpunkti en framleiðendur á borð við Aebi Schmidt hafa tekið forystu með tækjum eins og nýjum götusóp sem er alfarið rafdrifinn,“ útskýrir hann. „Markmiðið hjá Schmidt var að þróa rafdrifinn götusóp sem væri ekki stærri en þeirra vinsælasti götusópur en gæti samt fullnægt ströngustu kröfum og hreinsað götur viðstöðulaust út langan vinnudag. Útkoman er götusópur sem varla heyrist í og getur hreinsað göturnar í 10 klst. áður en þarf að stinga honum aftur í samband.“

Læðist um göturnar

Götusópurinn sem um ræðir er meðalstór, með litlu stýrishúsi, og hentar vel til þrifa í þröngum miðborgargötum. „Tækið er búið tveimur rafgeymapökkum þar sem annar knýr áfram hreinsibúnaðinn og hinn knýr mótorana sem hreyfa götusópinn úr stað. Rafhlöðurnar gera þennan fullkomna götusóp dýrari en ef valin væri sprengihreyfilsvél en á móti kemur að raforkan er mun ódýrari en díselolía. „Þeir hafa reiknað það út í Þýskalandi að rafdrifni götusópurinn skili 85% sparnaði í orkukostnaði og 70% sparnaði í viðhaldi. Hér á Íslandi má reikna með að á venjulegum líftíma götusópsins verði kostnaðurinn nokkurn veginn jafnhár hvort sem valið er að nota rafmagns- eða díselútgáfu.“

Friðrik segir rafdrifna götusópinn geta nýst vel í borgarkjörnum þar sem sópa þarf götur nokkrum sinnum í viku, oft að nóttu til þegar götur eru auðar, þegar hætta er á að hávaðinn frá vél og hreinsibúnaði veki fólk sem býr og gistir á þessum stöðum. „Það eru meira að segja komnir nýir burstar á markað, framleiddir af Weber í Þýskalandi, og eru nánast hljóðlausir. Hávaðinn frá rafdrifnum götusóp gæti því verið minni en hljóðið í ryksugu.“

Vinnuþjarkur sem hjálpar líka fötluðu fólki

Aebi Schmidt hefur líka smíðað lítið rafdrifið fjölnota tæki sem hægt er að festa á aukahluti s.s. til að slá gras, blása snjó og sópa götur. „Þetta tæki er á beltum svo það kemst nánast hvert á land sem er og veldur ekki skemmdum á jarðvegi. Ökumaður getur komið sér fyrir í þægilegu sæti eða fjarstýrt tækinu, t.d. ef vinna þarf í miklum halla.“

Friðrik viðurkennir að í svona litlum pakka endist hleðslan á rafhlöðunum ekki lengi ef mjög er reynt á rafdrifnu beltavélina, s.s. með snjómokstri. Hann segir hægt að reikna með um það bil tveggja tíma notkun í senn og geti tækið því hentað t.d. til að létta störf umsjónarmanna sem geta gengið í önnur verk á meðan tækið er hlaðið.

Komið hefur í ljós að rafdrifna litla beltavélin gagnast ekki bara við smáframkvæmdir og umhirðu heldur getur líka hjálpað fólki með skerta göngugetu að komast leiðar sinnar. Friðrik segir að vélin sé eins og lítill skriðdreki með sæti ofan á: „Það er fátt sem getur stöðvað þetta farartæki og núna getur fólk í hjólastól farið með vinum og ættingjum í ferðir út í óspillta náttúruna, og t.d. auðveldlega ekið upp á tind Esjunnar,“ segir hann. „Þarf bara að hafa nægilega mikinn kjark því beltavélin getur ráðið við mjög mikinn halla og það eru taugarnar sem gefa sig löngu áður en nokkur hætta er á að hallinn verði tækinu ofviða.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina