Fyrsti rafbíll Aston Martin

Breski sportbílaframleiðandinn Aston Martin segir, að fyrsti rafbíll bílsmiðjunnar myndi heita Rapide E. Hann verður ekki algeng sjón  á vegum því aðeins verða smíðuð 155 eintök af bíl þessum.

Bíllinn hefur ekki verið sýndur í endanlegri útgáfu en af skýringarmynd fyrir aflrás hans þykir mega álykta að hann verði eins og Aston Martin Rapide S sem breytt hefur verið í hreinan rafbíl.

Ekki í hvaða rafbíl sem er eða hvernig sem er rafbíl því hann er þróaður í samstarfi við formúluliðið Williams sem framleiðir meðal annars og þróar keppnisbíla í formúlu-1  og rafgeyma fyrir keppnisbílana í rafformúlunni, Formula E.

Rapide E fær 800 volta rafgeymi sem tekur 65 kílóvattstundir rafmagns. Hann verður staðsettur þar sem vél, gírkassi og bensíntankur í Aston Martin Rapide S er að finna.

Tveir rafmótorar munu knýja afturhjólin en samanlagt afl þeirra verður 601 hestafl. Staðhæft er að hröðun Rapide E muni duga til að koma bílnum á 100 km hraða úr kyrrstöðu á innan við fjórum sekúndum. Þá muni bíllinn klára hröðun úr 80 í 112 km á hálfri annarri sekúndu.

Uppgefið er að drægi Aston Martin Rapide E verði 321 kílómetrar, samkvæmt nýju WLTP viðmiðunum um orkunotkun bíla.

Fyrstu kaupendur rafbíls Aston Martin fá eintök sín á fjórða ársfjórðungi næsta árs, 2019. Miðað við að einungis 155 eintök verði smíðuð má ganga út frá því að  hvert þeirra kosti drjúgan skildinginn.

mbl.is