Blóðhundurinn í greiðslustöðvun

Blóðhundurinn við reynsluakstur.
Blóðhundurinn við reynsluakstur.

Óvíst er hvað verður úr tilraunum til að rjúfa hljóðmúrinn á landi því fyrirtæki að baki slíku ætlunarverki hefur sótt um greiðslustöðvun vegna nær óviðráðanlegrar fjárhagsstöðu.

Bloodhound SSC heitir tilraunabíllinn sem er fátt annað en eldflaug á hjólum. Til að áætlunin, sem unnið hefur verið að um árabil, gangi  upp vantar fyrirtækið enn 25 milljónir sterlingspunda, jafnvirði tæpra fjögurra milljarða íslenskra króna.

Blóðhundsliðið hefur sett sér það markmið að ná að minnsta kosti eittþúsund mílna meðalhraða, (1.609 kílómetra). Núverandi hraðamet er 763,035 mílur (1.227,72 km/klst) og er það í eigu forvera Blóðhundsins, Thrust SCC. Rauf hann hljóðmúrinn í metakstrinum.

Skipaðir fjárhaldsmenn búsins telja að klára megi dæmið og leggja til atlögu við hraðametið innan 10 mánaða, finnist fjárfestir til að leggja Bloodhound til nauðsynlega fjármuni.

Þeir segja að til mikils sé að vinna því mettilraunin hefur hlotið athygli og fylgst hefur verið af áhuga með henni um jarðir allar. Sé hún góð auglýsing fyrir bresk vísindi, tækni, verkfræðiþekkingu og færni í stærðfræði.

Það sem á vantar til að slá hraðametið á landi er aðeins brot af því sem það kostar að verða botnliðið í formúlu-1 eða tefla fram skútu í hinni miklu kappsiglingu um Ameríkubikarinn. Skiptaráðendur segjast eiga í viðræðum við fjölda hugsanlegra fjárfesta.

Verkefni Bloodhound hefur notið stuðnings Rolls Royce, Rolex og breska varnarmálaráðuneytisins. Höfðahérað í Suður-Afríku aðstoðaði við gerð sérlegrar 18 kílómetra langrar og 1500 metra breiðrar  brautar undir mettilraunina og undirbúning hennar.

mbl.is