Enn slær Porsche met í Norðurslaufunni

Porsche hefur endurheimt hraðametið í gömlu Nürburgring brautinni í Eifelfjöllum í Þýskalandi, svonefndri Nordschleife eða Norðurslaufunni. Þar var að verki  700 hestafla Porsche GT2 RS MR og lagði hinn hinn 20,6 kílómetra langa hring að velli á 6:40,33 mínútum.

Sportbíll sem skráður er til aksturs í venjulegri umferð hefur aldrei áður farið hringinn á tíma sem þessum, sex mínútum, 40 sekúndum og 33 hundruðustu úr sekúndu.

Gamla metið í flokki raðsmíðaðra bíla átti Lamborghini  Aventador SV og var það 6:44,97 mínútur, eða rúmum fjórum sekúndum lakara en hið nýja met Porsche.

GT2 RS MR bíllinn var sérstaklega undirbúinn til akstursins í Grænhelju eins og gamla Nürburgringbrautin hefur oft verið nefnd vegna hinnar mögnuðu brautar.  Undir stýri var ökumaðurinn Lars Helm sem er þaulkunnugur brautinni vegna mikils reynsluakstursins í henni um dagana.

Þetta var ekki fyrsta hraðamet hans í brautinni því í september í fyrra setti hann líka met, þá á óbreyttum Porsche GT2 RS bíl.

„Við höfðum vökult auga með veðrinu allan daginn og hugsuðum vel og lengi hvort tilraunin gæti borið ávöxt. Við hefðum aldrei reynt þetta ef það hefði verið einhver möguleiki á úrkomu eða brautin verið rök eða blaut,“ segir Dr. Frank-Steffen Walliser, yfirmaður akstursíþróttadeildar Porsche og GT bíla deildinni í tilkynningu.

Porsche GT2 RS bíllinn var búinn sérstökum búnaði frá Manthey-Racing, auk þess að vera uppsettur sérstaklega með akstur á Nürburgring-Nordschleife í huga. „Í þessum akstri vildum við hreinlega endurmeta getu bílsins. Útkoman var vel viðunandi. Þetta er stórkostlegur tími. Þetta sýnir enn og aftur hina stórkostlegu eiginleika þessa magnaða sportbíls,” bætir Walliser við.

Porsche GT2 RS var markaðssettur árið 2017 sem hraðskreiðasti og kraftmesti 911 bíll allra tíma. Á undanförnum mánuðum hafa verkfræðingar Porsche notað þekkingu og reynslu sína frá þróun 911 RSR og 911 GT3 R kappakstursbílanna sem og þá þekkingu sem Manthey-Racing hefur aflað sér með fjölda kappaksturssigra í Norðurslaufunni. Breytingar og betrumbætur þær sem gerðar voru á bílnum snúa að undirvagni og loftflæði bílsins. Ávallt var þó einblínt á getu og virkni bílsins til keyrslu á vegum úti frekar en á kappakstursbraut við þróun hans.

mbl.is