Ssang Yong toppar breska ánægjuvog

Breskir neytendur eru hæstánægðir með SsangYong jeppana.
Breskir neytendur eru hæstánægðir með SsangYong jeppana.

Kóreski bílaframleiðandinn SsangYong varð hlutskarpastur  í árlegri ánægjukönnun breska neytendamiðilsins Honest John.

Úrslit ánægjukönnunarinnar ræðst af upplifun bíleigenda. Þeir gefa meðal annars einkunnir fyrir aksturseiginleika, hagkvæmni í rekstri og áreiðanleika.

Niðurstaðan í könnuninni, sem 10. 000 breskir bíleigendur tóku þátt í að þessu sinni, liggur nú fyrir. Á toppnum er Ssang Yong, en hvorki meira né minna en 90,3% eigenda Ssang Yong jeppa sögðust hæstánægðir með sinn bíl.

„Þetta er frábær niðurstaða fyrir SsangYong, þökk sé frábærri jeppalínu, harðgerðu fjórhjóladrifi og víðtækri sjö ára eða 240.000 km ábyrgð,“ segir á heimasíðu Honest John.

Í öðru sæti varð bílsmiðurinn Porsche með 89,4% ánægju og í þriðja sæti varð dótturfélag Renault, rúmenski bílaframleiðandinn Dacia,  með 89,3% ánægju.

Það bílamódel sem hins vegar varð hæst í könnuninni var Toyota Prius af árgerðinni 2016 með 10 af 10 mögulegum fyrir eigendaánægju og endingartraust. Í öðru sæti varð Dacia Sandero árgerð 2013 með 9,89 einkunn og í þriðja sæti Lexus IS af árgerðinni 2013 með 9,87 í einkunn.

Býður fjórar tegundir SsangYong jeppa

Bílabúð Benna er umboðsaðili Ssang Yong á Íslandi og eru menn þar á bæ að vonum kátir með niðurstöðuna. Í tilkynningu segir Benedikt Eyjólfsson forstjóri úrslitin ekki koma sér á óvart. „Við þekkjum mæta vel hvað Ssang Yong hefur til að bera og þær gríðarlegu gæðakröfur sem gerðar eru á öllum stigum framleiðslunnar og þá metnaðarfullu þróunarvinnu sem þar á sér stað. Við finnum líka vel fyrir því að sífellt fleiri Íslendingar eru að uppgötva þennan hagstæða kost sem Ssang Yong er.“

Bílabúð Benna býður nú fjórar tegundir af Ssang Yong, sem allir eru fjórhjóladrifnir: Musso, Rexton, Korando og Tivoli. „Það segir sína sögu að nýjasti Rexton jeppinn var valinn 4X4 jeppi ársins nú nýlega.“ segir Benedikt.

mbl.is