Breyta lögum um vörugjald á ökutæki

Lagabreytingin gæti haft áhrif á bílasölu.
Lagabreytingin gæti haft áhrif á bílasölu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lagðar eru til breytingar á viðmiðum koltvísýringslosunar við álagningu vörugjalds á ökutæki og bifreiðagjalds auk þess sem gert er ráð fyrir að skilgreining sendibifreiðar verði lagfærð, vörugjaldi af tilteknum ökutækjum til vöruflutninga verði breytt, vörugjald af golfbifreiðum verði samræmt markmiðum um orkuskipti og að gerðar verði breytingar í því skyni að treysta hagsmuni ríkissjóðs við veitingu ívilnana.

Þetta kemur fram í frumvarpi um breytingar á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti,  bifreiðagjald og virðisaukaskatt sem efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis samþykkti á fundi sínum fyrr í dag. Koma á í veg fyrir að ósamræmi skapist við álagningu skatta og gjalda á ökutæki sem að óbreyttu hefðu komið til framkvæmda þann 1. janúar næstkomandi.

Í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu kemur fram að sambandið lagði í haust fram breytingartillögur á upprunalegum frumvarpsdrögum sem efnahags- og viðskiptanefnd tók til meðferðar. Hafi breytingatillögurnar verið samþykktar í  öllum meginatriðum. Að mati Bílgreinasambandsins eru breytingarnar afar jákvæðar fyrir þróun bílgreinarinnar og afkomu ríkissjóðs enda nema tekjur ríkisins af vörugjöldum og virðisaukaskatti af nýjum bílum milljörðum króna á ári hverju. Um leið eru breytingarnar jákvæðar í umhverfislegu tilliti.

María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, fagnar niðurstöðunni.  „Við gerum fastlega ráð fyrir að frumvarpið fari óbreytt í gegn enda eru miklir hagsmunir í húfi. Verði mótvægisaðgerðirnar sem frumvarpið felur í sér að veruleika munu nýir bílar því aftur lækka í verði þar sem áhrif af breyttum mæliaðferðum munu í flestum tilvikum jafnast út. Þessi aðgerð mun því styðja við endurnýjun bílaflotans og hafa jákvæð áhrif á verðlag þar sem bílar skipta máli í vísitölumælingum,“ segir María Jóna.

mbl.is