Rafbíll ársins hjá Top Gear

Jaguar I-Pace er rafbíll ársins að mati bílaþáttarins Top Gear.
Jaguar I-Pace er rafbíll ársins að mati bílaþáttarins Top Gear.

Að mati breska tímaritsins BBC Top Gear Magazine er fjórhjóladrifni rafbíllinn Jaguar I-Pace „ofurhljóðlátur, svakalega kraftmikill og yfirmáta stöðugur,“ eins og komist er að orði í niðurstöðu dómnefndar tímaritsins sem útnefnt hefur I-Pace rafbíl ársins.

Verðlaunin bætast við önnur nítján sem I-Pace hefur hlotnast frá því í mars þegar bíllinn fór á markað á meginlandinu. Þeirra á meðal eru verðlaunin „Bíll ársins“ í Þýskalandi og hjá Sunday Times og verðlaunin „Game Changer Award“ hjá Auto Car sem segir I-Pace þann bíl á markaðnum sem breytt hafi leikreglunum á árinu.

Jaguar I-Pace er fimm manna fjórhjóladrifinn rafbíll með tvo 70 kg rafmótora sem skila saman 400 hestöflum (290 kW) og 696 Nm togi. Bíllinn er enda ekki nema tæpar fimm sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km/klst.

Í bílnum er 90 kWh litíumjóna rafhlaða sem gefur allt að 470 km drægi við venjubundna daglega notkun í ECO-stillingu samkvæmt nýja mælistaðlinum WTPL. Vegna straumlínulögunar, háþróaðs fjórhjóladrifs og lágs og miðlægs þyngdarpunkts liggur bíllinn eins og klettur á veginum í anda ekta sportbíls.

Hægt er að hlaða rafhlöðuna 80 prósent á aðeins 40 mínútum með 100kW hleðslu eins og sums staðar er farið að setja upp á meginlandinu. Með viðurkenndri 7kW vegghleðslu frá Jaguar fyrir heimili er hægt að hlaða sama orkumagni á um tíu klukkustundum sem nægir flestum notendum í ljósi þess hve langdrægur bíllinn er, eða í kringum 470 km samkvæmt WLTP.

Stjórntölva Jaguar I-Pace reiknar drægi rafhlöðunnar samkvæmt nákvæmustu formúlu sem Jaguar hefur nokkru sinni þróað. Útreikningarnir taka m.a. mið af því hvernig vegaðstæðurnar eru, hitastig og veður og loks því hvernig ökumaðurinn beitir bílnum við aksturinn.

mbl.is