Lada í uppsveiflu

Margir Íslendingar eiga minningar um bíla rússneska bílsmiðsins Lada sem voru algengir hér á landi á síðustu áratugum 20. aldarinnar.

Minna er um Lödur í umferðinni nú og bregður þeim frekar sjaldan fyrir núorðið. Hver veit nema á því verði breyting í framtíðinni því bílsmiðurinn lifir nokkuð góðu lífi. Jókst útflutningur á Lödum um 65% á fyrstu níu mánuðum ársins, til septemberloka. Nam hann 27.400 bílum.

Á heimamarkaði sínum í Rússlandi á sama tímabili seldi Lada 260.000 bíla sem var 17% aukning frá janúar til september árið 2017. Var skerfur Lada í rússneska markaðinum 20%.

Velta Lada á tímabilinu var hlutfallslega meiri. Nam tæpum 200 milljörðum rúblna fyrstu þrjá ársfjórðungana sem var 25% aukning frá fyrra ári. Hreinn rekstrarafgangur var 5,4 milljarðar rúblna en á sama tímabili 2017 var um rekstrartap upp á 4,5 milljarða rúblna að ræða.

mbl.is