„Rafbílaleki“ til Noregs

Nýlegir rafbílar hafa streymt til Noregs frá Svíþjóð undanfarin misseri. ...
Nýlegir rafbílar hafa streymt til Noregs frá Svíþjóð undanfarin misseri. Þar hefur Nissan Leaf verið í nokkrum sérflokki.

Rafbílar streyma úr landi í Svíþjóð og þá einkum og sér í lagi til Noregs. Svo stríður hefur straumurinn verið að rætt er um „rafbílaleka“ til Noregs. Ástæðurnar eru óvenjulegar, eins og fram kemur hér að neðan.

Um er að ræða nýja eða afar nýlega bíla sem eru skiptimynt í tilraunum fyrstu skráðu eigenda til að hagnast á umhverfisstyrkjum, sem nema allt að 60.000 norskum krónum - um 900 þúsund íslenskum.

Í fyrra, árið 2017, voru fluttir inn notaðir rafbílar í þúsundatali til Noregs. Nam hlutdeild þeirra í nýskráningum innfluttra rafbíla 20,5%. Og í raun gæti hátt hlutfall þessara bíla verið nýir, alls ekki notaðir. Heldur hafi þeir bara verið skráðir í öðru landi og síðan áframsendir til Noregs.

Þetta getur verið ábatasöm iðja, eins og sniðugir spákaupmenn hafa fundið út.

Að sögn norska tímaritsins Teknisk Ukeblad var flett ofan af þessari iðju á vefsíðu samtaka eigenda Teslabíla í Svíþjóð. Þar var því haldið fram að sænskir rafbílar streymdu í stórum straum til Noregs.

Í fyrstu væru bílarnir boðnir sænskum kaupendum á kaupleigu í stuttan tíma, allt niður í eitt ár. Kaupleigufyrirtækin gætu að þeim tíma liðnum innheimt sérstaka niðurgreiðslu upp á 40.000 krónur sænskar, jafnvirði tæplega 550 þúsund íslenskra. (Þessi sérstaki umhverfisstyrkur hækkaði í 60 þúsund nú í sumar til að örva rafbílakaup Svía).

Þegar kaupleigutíminn rennur út hefur verið hægt að selja þá sem útflutningsvöru til Noregs. Niðurgreiðslunni gátu þau stungið í vasann og selt bílana hærra verði til Noregs heldur en fengist hefði fyrir þá á sænskum bílamarkaði.

Netsíða Tesla eigenda segist byggja frásögn sína á opinberum sænskum upplýsingum um bifreiðaskráningu þar í landi. Frá október 2017 til septemberloka 2018 voru 898 rafbílar fluttir út frá Svíþjóð til Noregs. Hafi verið búið að innheimta 40.000 króna niðurgreiðslustyrkinn - sem nefnist „supermilljöbilspremie“ eða ofurumhverfisverðlaunin - hefur sænska ríkið niðurgreitt kaup á rafbílum, sem síðan hafa verið sendir yfir landamærin til Noregs - fyrir 36 milljónir króna, jafnvirði rétt tæpra 500 milljónir íslenskra króna.

Þessir útfluttu rafbílar eru lítill skerfur á norskum rafbílamarkaði en hins vegar mjög hátt hlutfall seldra rafbíla í Svíþjóð. Af útfluttu bílunum á tímabilinu október 2017 til septemberloka 2018 voru 535 af gerðinni Nissan Leaf, 102 af gerðinni VW e-Up og e-Golf, 92 eintök af Hyundai Ioniq og 71 eintak af BMW i3. Suma mánuðina voru fleiri Nissan Leaf seldir til Noregs en skráðir voru nýir í Svíþjóð. Hefur þessi útflutningur Svía til granna sinna í Noregi orðið til þess að lítið sem ekkert er um notaða rafbíla á sænskum bílamarkaði.

Hermt er að samsvarandi leikur hafi verið leikinn í Frakklandi og að þaðan hafi verið mikið um innflutning á nýlegum rafbílum til Noregs.

Svíar hirða opinberar niðurgreiðslur vegna rafbílakaupa en selja bílana síðan ...
Svíar hirða opinberar niðurgreiðslur vegna rafbílakaupa en selja bílana síðan til Noregs fyrir hærra verð en þeir fengju á heimamarkaði.
Nýlegir rafbílar hafa streymt til Noregs frá Svíþjóð undanfarin misseri. ...
Nýlegir rafbílar hafa streymt til Noregs frá Svíþjóð undanfarin misseri. Þar hefur Nissan Leaf verið í nokkrum sérflokki.
mbl.is