Frumlegasti framleiðandinn

Hyundai kemur með vetnisknúinn raftrukk á markað á næsta ári.
Hyundai kemur með vetnisknúinn raftrukk á markað á næsta ári.

Að mati ritstjóra þýska bílablaðsins Auto Zeitung er Hyundai Motor „frumlegasti bílaframleiðandinn“. Veitir blaðið honum aðalverðlaun sín í ár sem handhafa verðlaunanna „Auto Trophy 2018“. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaðinu sem kom út í lok nóvember.

„Með verðlaunum heiðrar Auto Zeiting Hyundai fyrir forystu sína á tæknisviði og það val sem fyrirtækið býður neytendur um mismunandi orkugjafa þegar þeir velja nýjan Hyundai: tvinnbíla, tengiltvinnbíla, hreina rafbíla eða rafknúna vetnisbíla. Með Ioniq var Hyundai fyrstur bílsmiða til að bjóða fólksbíl þar sem kaupendur gátu valið um þrjá mismunandi orkugjafa í nýja bílnum; sem tvinnbíl, tengiltvinnbíl eða sem hreinan rafbíl. Annar fólksbíll er borgarjepplingurinn Kona. Með kaupum á honum geta neytendur valið bílinn með dísilvél, bensínvél eða rafmótor. Og nú, innan fárra vikna kemur Nexo, önnur kynslóð rafknúins vetnisbíls sem tekur við kyndlinum af iX35 sem var fyrsti rafknúni vertnisbíllinn á almennum markaði,“ segir í tilkynningu.

„Verðlaunin nú eru einnig til vitnis um þann metnað sem rekstraráætlun okkar fyrir tímabilið 2016 til 2025 ber vitni um. Í henni kemur m.a. fram að á tímabilinu munum við kynna 18 nýja græna bíla, þar á meðal 8 tvinnbíla, 4 tengiltvinnbíla, 5 rafbíla og 1 rafknúinn vetnisbíl,“ segir Christoph Hofmann aðstoðarframkvæmdastjóri Hyundai.

Leiðandi í þróun vetnistækni

Hyundai hefur rannsakað vetnistækni fyrir bíla frá árinu 1998 og setti rafknúna vetnisbílinn iX35 á almennan markað 2013. Á þessu ári kom önnur kynslóð tækninnar á markað með jepplingnum Nexo sem Hyundai í Garðabæ mun kynna fljótlega eftir áramót. Nexo er með um 670 km drægni á vetnistankinum sem gerir kleift að aka frá Reykjavík til Egilsstaða svo dæmi sé tekið og má geta þess að Skeljungur undirbýr uppsetningu vetnisstöðva á helstu þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni auk þeirra sem þegar hafa verið teknar í notkun á höfuðborgarassvæðinu.

Rarknúinn vetnisvöruflutningabíll

Hyundai kynnti í október að á næsta ári komi á markað átján tonna vetnisknúinn vöruflutningabíll með rafmótor. Upphafið verður í Sviss þegar fyrirtækið H2 Energy fær afhenta fyrstu bílana af mörgum sem fyrirtækið mun taka í notkun á næstu fimm árum til að kynna og knýja á um mengunarlausan flutningsmáta í samræmi við áætlanir yfirvalda í Evrópulöndum.

mbl.is