1,4 millu hraðasekt

Á franskri hraðbraut við Boulogne-sur-Mer
Á franskri hraðbraut við Boulogne-sur-Mer AFP

Maður á mótorhjóli með konu á aftursætinu þurfti að gjalda dýrt fyrir kappakstur á franskri hraðbraut. Var hann sektaður um 10.000 evrur fyrir brotið.

Knapinn átti í kappakstri við konu á fágætan ofurbíl, Mercedes AMG GTS, en upp komst um kauða eftir að hann setti myndskeið frá akstrinum inn á myndbandaveginn Youtube. Leiddi það lögregluna á sporið en þrír mánuðir voru þá frá brotinu.  

Brotið átti sér stað á A7-hraðbrautinni í héraðinu Drome í Frakklandi, að sögn útvarpsstöðvarinnar France Bleu Drôme Ardèche.

Saksóknari krafðist 16.500 evru sektar en dómari taldi 10.000 duga, eða sem svarar 1,4 milljónum króna. Aukinheldur var maðurinn sviptur ökuréttindum og mótorhjólið gert upptækt.

Hámarkshraði á frönskum hraðbrautum er 130 km/klst en sjálfvirkar hraðaratsjár mældu kappaksturshjúin á allt að 245 km/klst.

mbl.is