Fjármálagreinendur verstir, málarar bestir

Málarar og húsasmiðir eru öruggustu bílstjórarnir en læknar og fjármálagreinendur …
Málarar og húsasmiðir eru öruggustu bílstjórarnir en læknar og fjármálagreinendur þeir óöruggustu. Lögmenn þykja líka skæðir.

Því er haldið fram að ný rannsókn á bótakröfum til tryggingafélaga leiði í ljós í eitt skipti fyrir öll hvaða starfsstéttir skila af sér bestu ökumönnunum og hverjar verstum.

Greining á milljónum breskra tjónaskýrslna bendir til að nokkuð sé hæft í kenningunni um að til séu borgarbúar með meira af peningum á milli handa en heilbrigðri skynsemi, þar sem greinendur á fjármálamarkaði tróna efst á lista yfir slysasæknustu bílstjórana.

Í öðru sæti á tossalistanum eru læknar og í því þriðja fjármálaráðgjafar. Í sætum fjögur til tíu – í þessari röð – eru svo tannlæknar, lyfjafræðingar, fasteignasalar, endurskoðendur, lögmenn, vísindamenn og tölvufræðingar.

Á allt annarri og betri bylgjulengd eru svo málarar, sem mælast öruggustu ökumennirnir út úr rannsókninni. Í öðru sæti urðu húsasmiðir og atvinnubílstjórar eru þriðju bestu, en það eru vonbrigði fyrir þá að komast ekki ofar en í þriðja sæti.

Í sætum fjögur til tíu yfir öruggustu bílstjórana eru – í þessari röð – langskólanemar, slátrarar, bændur, hreingerningamenn, verkamenn, verksmiðjustarfsmenn og kokkar.

Niðurstöðurnar byggjast á rannsókn á 2,6 milljónum tjónaskýrslna tryggingamiðilsins 1st Central. Í henni fékkst mynd af akstri viðkomandi starfsstétta á einkabílum sínum. Félagið segir að það sem mestu varði fyrir ökumenn, óháð því hvort þeir séu málarar eða fjármálagreinendur, sé að vera vel tryggðir. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: