Hollur er heimafenginn baggi

Renault Clio, söluhæsta bílamódelið í Frakklandi.
Renault Clio, söluhæsta bílamódelið í Frakklandi.

Svo virðist sem segja megi, að Frökkum þyki hollur heimafenginn baggi. Allavega þegar gögn um bílasölu í landinu  eru skoðuð. Uppsveifla hefur verið í nýskráningum allt árið.

Þó varð 3,5% samdráttur í sölunni nýliðnum nóvember er alls voru nýskráðir 171.711 bílar í Frakklandi. Frá áramótum til nóvemberloka nemur salan 2.213.962 eintökum sem er 4,9% aukning frá sama tímabili í fyrra.

Þegar rýnt er í sölu einstakra módela er Renault Clio það söluhæsta  með 112.959 eintök seld frá áramótum. Í öðru sæti er Peuget 208 með 95.236 eintök og Peugeot 3008 í því þriðja með 79.169 eintök. Fyrstu 13 sætin á lista þessum skipa franskir bílar, Toyota Yaris er svo í 14. sæti og Volkswagen Polo í því 15.

Í sætum fjögur til tíu eru  Citroen C3 (71.835), Dacia Sandero (65.011), Renault Captur (62.821), Peugeot 2008 (62.192), Peugeot 308 (58.906), Dacia Duster (48.159) og Renault Megane (42.520)

Þegar heildarsala hvers bílaframleiðanda um sig er skoðuð lítur listinn yfir tíu söluhæstu svona út: Renault (374.922), Peugeot (362.458), Citroen (197.602), Dacia (130.729), Volkswagen (127.211), Toyota (89.201),  Ford (76.697), Fiat (73.293), Opel (66.775) og Mercedes (58.426).

mbl.is