Toyota á Íslandi innkallar þúsundir bíla

Toyota á Íslandi kallar inn bíla sökum loftpúðagalla.
Toyota á Íslandi kallar inn bíla sökum loftpúðagalla. AFP

Toyota á Íslandi þarf að innkalla um 4.000 Toyota-bifreiðar. Grunur leikur á að loftpúðar bílanna séu gallaðir. Um er að ræða hluta af alþjóðlegri innköllun sem má rekja til framleiðanda loftpúðanna, Takata.

Innköllunin tekur til 4.021 bifreiðar. Tegundir þeirra eru: Avensis, 1.654 eintök, Corolla, 2.159 eintök, Verso, 185, og loks 23 eintök af Yaris. Bílarnir eru af árgerðunum 2000 til 2007.

Tilkynning frá Neytendastofu.

Skipt verður um loftpúða í bílunum eða hluta af honum. Viðgerðin tekur 1-6 klukkustundir. Eigendur fá bréf en Neytendastofa hvetur bifreiðaeigendur til þess að hafa augun opin fyrir hugsanlegum innköllunum á bílum þeirra.

Vestanhafs hefur Toyota neyðst til þess að kalla inn mörg hundruð þúsund bíla af þessum sömu sökum. Nú er það gert hérlendis.

mbl.is