Keppnisbílarnir verði fallegri

Í þessa veru munu Le Mans-keppnisbílar líta út frá og ...
Í þessa veru munu Le Mans-keppnisbílar líta út frá og með 2020.

Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) hefur birt mynd af þolaksturskappakstursbíl eins og sambandið vill að keppnisbílar þessir líti út frá og með 2020.

Aðal keppnisbílarnir (LMP1)  í þolakstri eins og sólarhringskappakstrinum í Le Mans í Frakklandi þykir sambandinu ófrýnilegir og segir þá útlitslega höfða fremur lítt til fólks.

Á því verður breyting 2020 því þá munu LMP1-bílarnir verða mun nær dæmigerðum ofursportbílum frumgerðarbílum að útliti.

Þá verða settar stífar skorður við því hvað keppnislið má verja til smíði bíls og keppni. Er það gert til að liðka fyrir þátttöku einkaliða og gera þau samkeppnisfærari við lið bílaframleiðenda sem tröllriðið  hafa keppni í þolakstri mörg undanfarin ár. Engu að síður er þakið nokkuð hátt eða 200 milljónir dollara.

mbl.is