Nýr og stærri BMW X4

Afturhallandi þakið er einkenni BMW X4.
Afturhallandi þakið er einkenni BMW X4.

Önnur kynslóð hins vinsæla sportjeppa BMW X4 er komin í hús hjá bílaumboðinu BL.  Er hann bæði stærri og breiðari en forverinn, sem kynntur var til leiks árið 2014.

Á heimasíðu BL segir að nýi bíllinn með afturhallandi þakið skeri sig úr fjöldanum vegna sportlegs og ögrandi útlits. Hann sé bæði stærri og straumlínulagaðri en forverinn og loftmótstaðan enn minni, raunar sú lægsta í þessum flokki.

Nýr X4 er 8,1 sentímetrum lengri og 3,7 sm breiðari auk þess sem hjólhafið er 5,4 sm meira. Þrátt fyrir stærðina sé hann fimmtíu kílóum léttari en forverinn og með enn lægri þyngdarpunkt.

Á nýjum BMW X4 er ný og hljóðeinangrandi framrúða til að draga betur úr umhverfishljóðum. Einnig ný lárétt díóðuþokuljós að framan, ný díóðudagljós á utanverðum framluktum og val um að hafa sömu tækni í sjálfum aðalljósunum sem hafa stækkað. Þá er grillið stærra en á forveranum.

„Útlitsbreytingarnar eru þó ef til vill enn greinilegri að aftan, einkum á nýjum, mjög ílöngum og grípandi díóðuljósunum sem ná vel inn á hliðar bílsins. Snertilaus opnun skottloksins og sjálfvirk lokun eru einnig staðalbúnaður í nýjum X4. Þá má einnig nefna að númeraplatan hefur verið færð af afturhlera og niður á stuðarann auk þess sem tvöfalt púst er nú meðal staðalbúnaðar,“ segir á heimasíðu  BL.

BL býður X4 með tveggja lítra 190 hestafla dísilvél við átta gíra Steptronic sjálfskiptingu og xDrive Intelligent fjórhjóladrif BMW. Vélin togar 400 Nm og er krafturinn því nægur, enda X4 einungis 8 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Hægt er að sérpanta X4 með öðrum þeim vélum og aukabúnaði sem framleiðandinn býður með bílnum.

mbl.is