Nio sendir frá sér jeppa

Kínverskir bílsmiðir sækja stöðugt í sig veðrið og er einn þeirra, NIO, að senda frá sér sinn annan jeppa, sem gengur undir heitinu ES6. Er honum stefnt gegn verðandi iX3 bíl BMW.

NIO á sitt eigið lið í rafformúlunni, formúlu E, og geteur státað sig af hraðametum á Nürburgring-brautinni sem framleiðendur hraðskreiðra bíla brúka mjög til bílþróunar. NIO á einnig hraðamet í formúlubrautinni í Austin í Texas í Bandaríkjunum og hann hefur nú hafið smíði á sjö sæta rafjeppa.

Sala er hafin á ES6 í Kína og fá fyrstu kaupendur bíla sína með sumrinu. Hann er smærri bróðir ES8-jeppans. Er hann þó ekkert smár í sniðum; er 4,85 metrar á lengdina, 1,97 metrar á breidd, 1,77 metrar á hæð og hjólhafið er 2,90 metrar.

Uppgefið drægi bílsins er 510 kílómetrar með stærsta rafgeyminum, 84 kWh. Kraftinn skortir ekki en með sinn rafmótorinn á hvorum öxli fást allt að 544 hestöfl niður í hjólin og togið mælist 725 Newtonmetrar. Úr kyrrstöðu nær ES6 hundraðinu á 4,7 sekúndum. Kínverjarnir eru þó einna stoltastir yfir skilvirkri bremsufærni bílsins. Frá því stigið er öflugt á hemlana á 100 km/klst ferð stoppar hann á aðeins 33,9 metrum.  Topphraði bílsins er uppgefin 200 km/klst.

Til þess að ná bílnum sem léttustum en samt með mjög styrkri yfirbyggingu er NIO ES6 byggður úr koltrefjaefnum og áli í bland.
   
Í Kína er verðið á NIO ES6 að jafnvirði frá sex og upp í sjö milljónir íslenskra króna, allt eftir útbúnaði. Til lækkunar verðin koma svo ívilnanir ýmiss konar sem kaupendur rafbíla njóta.

mbl.is

Bloggað um fréttina