Metsala á Rolls-Royce

Bandaríkin eru stærsti markaðurinn fyrir Rolls Royce lúxusbíla.
Bandaríkin eru stærsti markaðurinn fyrir Rolls Royce lúxusbíla. AFP

Breski lúxusbílaframleiðandinn Rolls-Royce hefur aldrei selt jafn marga lúxusbíla í 115 ára sögu sinni og nýliðið ár, 2019.  

Rolls seldi nákvæmlega 4.107 bíla í 50 löndum heims og jók söluna  í öllum heimshornum. Er það mikil breyting frá 2017 er 3.362 Rolls-Royce glæsibílar voru nýskráðir.

Bandaríkin voru áfram stærsti markaðurinn fyrir lúxusbíla Rolls-Royce. Uppgangurinn í ár undirstrikar hvernig lúxusbílamarkaðurinn gengur í aðra átt en almennur markaður fyrir fólksbíla sem hefur átt í vök að verjast, einkanlega í Evrópu.

Nýja Phantom-módelið sem kom á götuna 2018 er megin skýringin á aukinni sölu Rolls-Royce. Ekkert módel seldist þó jafn vel á árinu og Ghost. Sá síðarnefndi kostar um 250.000 evrur kominn á götuna en Phantom um 450.000 evrur.

Auk raðsmíðaðra bíla býður Rolls-Royce einnig upp á skraddarasaumaða bíla að óskum hvers og eins. Þá rennur nú jeppinn Cullinan úr smiðju Rolls-Royce í Goodwood , en þar starfa á þriðja þúsund manns.

Fyrirtækið Rolls-Royce var stofnað í byrjun tuttugustu aldarinnar. Árið 1998 keypti þýski bílsmiðurinn BMW það.

mbl.is