Lipur lítill jepplingur með mikið notagildi

Karoq er lipur í akstri og góður í hversdagslegt snatt …
Karoq er lipur í akstri og góður í hversdagslegt snatt í borgum og bæjum. mbl.is/Árni Sæberg

Þó að jepplingurinn Skoda Karoq öskri ekki endilega á athygli þegar maður sér hann úti á götu, og sé frekar hefðbundinn í útliti, þá er sitthvað við hann sem gleður við nánari kynni. Karoq er svona „lítill“ jepplingur, litli bróðir Skoda Kodiaq-smájeppans og rúmlega 30 sentimetrum styttri.

Fyrir þá sem ekki eru vel að sér í Skoda-fræðum, þá er Karoq arftaki hins sérkennilega Skoda Yeti, og ljóst er að Skoda hefur komist að þeirri niðurstöðu að hanna bíl sem félli fjöldanum betur í geð en Yeti-inn, sem hentaði kannski frekar þeim sem hugsa út fyrir kassann.

Eitt af því sem einkennir Karoq eru allir skemmtilegu fylgihlutirnir í bílnum, en þeir eru miklu fleiri en í öðrum bílum sem ég hef fengið að prufukeyra undanfarna mánuði. Þá er stimamýkt bílsins og stinnleiki áberandi góður.

Ruslafata og regnhlíf

Sérlega rúmt er um bæði ökumann og farþega, og gott …
Sérlega rúmt er um bæði ökumann og farþega, og gott er að setjast inn í bílinn bæði að framan og aftan. mbl.is/Árni Sæberg


Sem dæmi um skemmtilega aukahluti, eru alls konar hirslur sem finna má hér og hvar í bílnum. Ofan á mælaborðinu miðju er til dæmis rúmgóð geymsla, og mér fannst sérstaklega þægilegt að skutla veskinu og símanum þar ofan í, þó að auðvitað væri skynsamlegra að setja símann í hleðslu annars staðar í bílnum, sem að sjálfsögðu er hægt líka.

Á milli framsæta er rúmgóð hirsla, og hægt er að leika sér aðeins með hana og breyta henni í flöskuhaldara. Þá er enn annað hólf fyrir framan gírskiptinguna, en þar má einmitt skella símanum sínum í hleðslu. Pláss í hurðum er líka prýðilegt, og hægt að setja þar í sæmilega stórar gos- eða vatnsflöskur. Þá er mjög gaman að teygja sig undir framsætin eftir regnhlíf, í boði Skoda! Annað sem mér þótti reglulega ánægjulegt að sjá var lítil ruslafata í hurðinni og snjóskafa í bensínlokinu.

Nú eru allir bílar komnir með hnappa til að ræsa bílinn, en ekki Skoda Karoq. Hann er gamaldags að því leyti, og er það vel, enda er maður alltaf í tómum vandræðum með það hvað maður á að gera við þennan blessaða lykil, sem ekki fer í sviss. Þá lætur bíllinn sér nægja eitt stykki skífuhraðamæli upp á gamla mátann, og snúningshraðamæli þar við hliðina, eins og vera ber. Ekki er verið að bjóða upp á tvo-þrjá mismunandi hraðamæla eins og maður er farinn að sjá meira og meira af í nýjum bílum.

Sérlega rúmt er um bæði ökumann og farþega, og gott …
Sérlega rúmt er um bæði ökumann og farþega, og gott er að setjast inn í bílinn bæði að framan og aftan. mbl.is/Árni Sæberg


Fjarlægðarskynjarar eru að sjálfsögðu í Karoq, til að hjálpa manni að lenda ekki í óhöppum í umferðinni, en ég lenti í einhverju smá baksi með minn skynjara. Fyrst fór hann að vera með læti þegar ég var kominn með nefið á bílnum alveg ofan í trjágróður á bílastæði, og í seinna skiptið byrjaði hann að væla á mig þegar ég beið úti á miðri götu með stefnuljósið á og beið þess að runa af bílum færi framhjá úr gagnstæðri átt. Þá kipptist fjarlægðarskynjarinn við og fór að pípa og gera ýmsar kúnstir. Áreitið þarna hefur greinilega verið svo mikið að hann hefur haldið að hann væri kominn í partí, og það úti á miðri götu!

Hanskahólfið er sæmilega stórt, og í raun má segja að Karoq sé alveg sérstaklega rúmgóður allur, sérstaklega þegar haft er í huga að um „lítinn“ jeppling er að ræða, eins og ég nefndi hér á undan. Sérlega rúmt er um bæði ökumann og farþega, og gott er að setjast inn í bílinn bæði að framan og aftan. Farþegar í aftursæti geta þannig vel við unað. Fótapláss er ágætt, og lofthæð góð. Þrengt gæti þó að þremur fullvöxnum einstaklingum.

Góður ferðabíll

Aftursætisfarþegar geta til dæmis notað borðið til að vinna í …
Aftursætisfarþegar geta til dæmis notað borðið til að vinna í fartölvunni. mbl.is/Árni Sæberg


Talandi áfram um aukahlutina, þá er boðið upp á borð fyrir farþega í aftursætum, en borðið leggst upp að framsætunum að aftan, og hægt er að færa þau niður í tvær stillingar: eina stillingu þar sem til dæmis væri hægt að setja fartölvu á borðið, og aðra stillingu sem hentar vel fyrir nestið eða litabókina. Þetta eykur óneitanlega eiginleika bílsins sem ferðabíls, til dæmis fyrir börnin á leið til Akureyrar. Glasahaldara er svo hægt að draga út úr hlið borðsins.

Ef við fetum okkur aðeins aftar í Karoq þá er ýmislegt hnýsilegt að finna í skottinu. Ég skrapp í Bónus og hengdi innkaupapokana á hanka í skottinu, og gekk það mjög vel, þó að ég hafi farið einhverjar krókaleiðir á heimleiðinni, og yfir nokkrar hraðahindranir. Allar nýlenduvörurnar voru á sínum stað í pokunum þegar komið var á leiðarenda.

Sjö þrepa sjálfskipting er í bílnum.
Sjö þrepa sjálfskipting er í bílnum. mbl.is/Árni Sæberg


Auk þess að vera með lykil sem gengur í svissinn, þá er Karoq „gamaldags“ að því leyti að boðið er upp á þetta fína varadekk undir gólfinu í skottinu, en ekki látið nægja að bjóða bara upp á kvoðu eða rafmagspumpu fyrir dekk sem springur.

Fyrir spjátrungana, þá eykur það óneitanlega lífsgleði þeirra að sjá óvæntan glaðning birtast á götunni fyrir neðan þegar bíldyrnar eru opnaðar, en þá sér maður sjálft Skoda-merkið varpast niður á malbikið. Þetta er ansi hlýlegur eiginleiki og skemmtilegur. Ég gef þessum bíl toppeinkunn fyrir að vera mjög þægilegur borgarbíll. Það er gott að snattast í honum, hann er af góðri stærð, og ræður vafalaust vel við slyddu og snjó í vetur.

Krafturinn er sæmilegur, þegar maður hleypir honum á sprett. Karoq tók ágætlega við sér á Álftanesveginum, og fór á frekar skömmum tíma upp í 120. Maður biður nú ekki um mikið meira, svona innanbæjar!

Snyrtilegt er um að litast í vélarhúsi Skoda Karoq.
Snyrtilegt er um að litast í vélarhúsi Skoda Karoq. Árni Sæberg


Hiti er í sætum, og er það vel, auk þess sem ökumaður situr frekar hátt í bílnum.

Fyrst þegar ég renndi úr hlaði hjá Heklu á Laugaveginum fannst mér heyrast heldur hátt í vélinni, en þegar frá leið hætti það að trufla og í raun fannst mér hljóðið mjög fljótt orðið hluti af persónuleika bílsins.

Grænt upplýsingakerfi

Upplýsingakerfið er smekklegt og aðgengilegt. Mikið er gert úr grænum eiginleikum við aksturinn og getur ökumaður t.d. fylgst náið með slíkum málum í kerfinu. Þetta er fyrsti bíllinn sem ég prófa þar sem ekki var búið að forvelja allar helstu útvarpsstöðvar, en það er líklega bara stillingaratriði hjá umboðinu. Ég prófaði að velja útvarpsstöðvar með raddstýringu, en þar átti stafræna aðstoðarkonan í mestu erfiðleikum með að skilja mig þegar ég reyndi að segja „RÚV“ með enskum hreim. Spurning hvort að ekki sé betra að nota gamla lagið við val á útvarpsstöðvum.

Sjálfskiptingin er sjö þrepa, leysti verk sitt vel af hendi og með þónokkuri mýkt.

Skoda K:aroq.
Skoda K:aroq. mbl.is/Árni Sæberg


Ég átti um skamma hríð Citroën Picasso og eitt af því sem mér líkaði vel við þann bíl var að ég gat tekið sætin út, og breytt bílnum í eins konar sendiferðabíl. Það sama er uppi á teningnum hér, en hægt er að losa sætin og kippa þeim út. Þetta eykur notagildið heilmikið. Þá er hægt að toga sætin fram og til baka, og halla þeim eins og flugvélasætum, sem hjálpar til við að láta farþegum líða vel og slappa af meðan á akstri stendur.

Skottið er mjög rúmgott og þægilegt að er komast í það. Það er 521 lítri ef sætin eru uppi, og 1.810 lítrar ef sætin eru tekin burt. Gardínan í afturglugganum teygist upp þegar skottið er opnað, en hana er auðvelt að taka út, og koma fyrir á tilteknum stað í gólfinu, sérstaklega fráteknum fyrir gardínuna.

Fyrir tæknitröllin þá má ná sér í app fyrir bílinn, og fylgjast þar með staðsetningu hans og þrýsta á flautuna úr fjarlægð! Bíp, bíp!

Það er stæll á ljósastæðinu aftan á Skoda Karoq.
Það er stæll á ljósastæðinu aftan á Skoda Karoq. mbl.is/Árni Sæberg
Fágun í fyrirrúmi í ljósabúnaði að framan á Skoda Karoq.
Fágun í fyrirrúmi í ljósabúnaði að framan á Skoda Karoq. mbl.is/Árni SæbergNánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »