Sölumet hjá Dacia

Nýr Dacia Duster sló í gegn 2018.
Nýr Dacia Duster sló í gegn 2018.

Dacia, hið rúmenska dótturfyrirtæki Renault Group, átti góðu láni að fagna 2018 enda hefur framleiðandinn aldrei selt fleiri fólks- og sendibíla eða alls 141.586.

Aukningin nam 18,6% og eru fólksbílar Dacia nú þeir fjórðu mest seldu í Frakklandi. Renault Group framleiðir um þessar mundir fimm gerðir fólksbíla sem tilheyra hópi tíu mest seldu bílanna á franska markaðnum. Þar af trónir Clio á toppi listans auk þess sem fjórir bílar eru fjórum efstu sætum yfir sölu léttra sendibíla.

Hvað varðar sölu á Dacia til einstaklinga eingöngu er merkið það þriðja söluhæsta í Frakklandi og Dacia Sandero mest seldi fólksbíllinn í eigu einstaklinga og sá fimmti mest seldi á lista 10 vinsælustu bílategundanna.

Ný kynslóð Duster sló í gegn meðal Frakka á árinu enda jókst salan um nær 40% í kjölfar frumsýningar nýja bílsins. Er Duster nú í níunda sæti yfir mest seldu bílana til einstaklinga í Frakklandi.

Dacia Sandero Stepway.
Dacia Sandero Stepway. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
mbl.is