Hart tekið á mengandi bílum

Ætlunin er að draga úr útblástursmengun bíla og bæta þar ...
Ætlunin er að draga úr útblástursmengun bíla og bæta þar með andrúmsloftið í Madríd. AFP

Yfirvöld í höfuðborg Spánar, Madríd, hafa gripið til afar harðra aðgerða gegn bílum sem menga mikið. Gildir einu hvort um er að ræða dísil- eða bensínbíla.

Hafa nánast allir dísilbílar frá 2006 og fyrr verið útilokaðir frá miðborgarsvæðinu og bensínbílar frá 2000 og eldri. Er þetta liður í aðgerðum borgarstjórnarinnar að minnka mengun í borginni um allt að 40%.

Samþykkti borgarstjórnin að þjarma jafnt og þétt að mengandi bílum með árunum þann veg að á endanum aki í Madríd einungis bílar sem losa ekkert gróðurhúsaloft.

Til að byrja með er talið að nýju reglurnar komi strax við um 20% bíla sem um miðborg Madrídar fara dag hvern. Ásamt því að leggja til atlögu vð mengunina er reglunum ætlað að hvetja til aukinna hjólreiða í borginni og draga úr umferðarhávaða.

Með samþykktum sínum fetar borgarstjórn Madrídar í kjölfar Parísarborgar sem bannað hefur alla bíla frá 1997 og fyrr úr borginni um helgar.  Þá hafa yfirvöld í London og Stokkhólmi reynt að draga úr umferð mengandi bíla með háum gjöldum fyrir akstur á miðborgarsvæðunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina