Ford Focus bíll ársins í Danmörku

Viðurkenning fyrir bíl ársins, Ford Focus, afhent. Við henni tekur …
Viðurkenning fyrir bíl ársins, Ford Focus, afhent. Við henni tekur forstjóri Ford í Danmörku, Janne Kamarainen, úr hendi formanns samtaka danskra bílablaðamanna, Karsten Lemche. Milli þeirra er upplýsingastjóri Ford í Danmörku, Lene Dalhquist.

Danskir bílablaðamenn hafa útnefnt Ford Focus sem bíl ársins 2019. Fékk hann 187 stig hinna 26 manna samtaka danskra bílablaðamanna og vann öruggan sigur.

Í öðru sæti varð Peugeot 508 með 132 stig, þriðji Hyundai Kona með 127stig, fjórði Kia Ceed með 112 stig og restina rak Jaguar I-Pace með 92 stig.

„Ford Focus er sérstaklega lofsamaður fyrir aksturseiginleika, hann er bíll fyrir þá sem hafa gaman af því að keyra en það er nokkuð sem Focus hefur verið þekktur fyrir í gengum tíðina,“ segir í tilkynningu.

Þetta er í áttunda sinn sem Ford vinnur þessi verðlaun í Danmörku. Til gamans má geta að það var Ford Capri sem vann þau þegar þau voru veitt í fyrsta sinn, árið 1969. Þá hlaut Ford Focus, nýkominn á markað í Danmörku, fyrir nákvæmlega 20 árum, 1999.

Ný kynslóð af Ford Focus kom til sögunnar á nýliðnu ári og er allra glæsilegasti Focusbíllinn til þessa. Hann hefur og fengið góða dóma út um allan heim. Í tilkynningu segir að hann marki nýja tíma hvað varðar tækni, þægindi, pláss og akstursupplifun í flokki fólksbíla.

Hinn nýi Focus er sportlegur að ytra útliti, rúmgóður að innan og vel búinn. Eldsneytisnotkun hans er skilvirkari en áður og losun gróðurhúsalofts minni. Allar vélarnar sem velja má úr eru með Start-Stop búnað og standast kröfur Euro 6 losunarstaðlanna.

Nýr Ford Focus er bíll ársins 2019 í Danmörku.
Nýr Ford Focus er bíll ársins 2019 í Danmörku.
mbl.is