Daginn eftir illviðrið

Hraukur bíla sem sópuðust saman í Kobe í Japan eftir ...
Hraukur bíla sem sópuðust saman í Kobe í Japan eftir fárviðri. AFP

Við náttúruhamfarir eins og fellibylji vilja lauslegir hlutir fjúka til og frá, misjafnlega mikið efteir vindstyrk.

Krafturinn var mikill í Kára þegar gríðarlega öflug Kyrrahafslægð að nafni Jibi gekk yfir Japan á dögunum. Vindhraðinn mældist allt að 61 metri á sekúndu og þegar svo hvasst blæs fjúka þungir hlutir eins og bílar léttilega. 

Verður þá jafnan mikið tjón og flestir bílanna eyðileggjast, ekki síst ef flóðvatn fylgir fellibyljunum. Í borginni í Kobe sópuðust tugir bíla saman í kös mikla er versta veður í aldarfjórðung skall á borginni.

Gefur loftmyndin af hrauknum til kynna hversu mikill veðurhamurinn var. Tæpast hafa bílatryggingar lækkað eftir þessi ósköp.

mbl.is