Þeir yngstu telja sig bestu ökumennina

Ungir ökumenn hafa mikið sjálftraust.
Ungir ökumenn hafa mikið sjálftraust.

Þeir yngstu telja sig bestu ökumennina, samkvæmt könnun á viðhorfi ökumanna til eigin getu sem Gallup gerði í lok 2017 fyrir Samgöngustofu.

Þar kemur fram að örfáir ökumanna telja sig vera undir meðallagi hvað hæfni þeirra til aksturs varðar.

Þar sem spurningin snýst um meðaltal þá væri raunsönn niðurstaða að jafnmargir væru yfir meðallagi og undir en þess í stað virðast flestir telja sig betri en aðra ökumenn eða svipaðir. Sérstaka athygli vekur að líklegra er að ungir ökumenn telji sig betri en aðrir.

10% allra sem spurðir voru telja sig vera langt yfir meðalllagi, 41% nokkuð yfir meðallagi og 46% svipaðir og aðrir ökumenn. Það er ljóst að karlar eru ekki eins hógværir og konur því 17% þeirra telja sig langt yfir meðaltali á meðan aðeins 3% kvenna telja sig tilheyra úrvalsflokki ökumanna.

Það vekur athygli að yngstu ökumennirnir (18-24 ára) er sá hópur sem telur sig bestu ökumennina en 56% þeirra telja sig yfir meðallagi. Þar af segjast 11% vera langt yfir meðallagi og 45% nokkuð yfir. Aðeins 6% þeirra telja sig vera nokkuð undir meðallagi sem ætti í ljósi reynsluleysis þessa hóps að vera mun stærra hlutfall. Til samanburðar má geta þess að í aldurshópnum 35 – 44 ára telja 50% sig yfir meðallagi en reyndar eru færri í þeim hópi sem telja sig undir meðallagi eða aðeins 1%. 

„Þótt sjálfstraust sé vitanlega mikill kostur þá er hættan sú að ökumenn knúnir áfram af ofmati á eigin hæfni taki áhættur og hagi ekki akstri samkvæmt aðstæðum. Yngsti aldurshópurinn er sá hópur sem líklegastur er, samkvæmt slysatölum Samgöngustofu, til að valda umferðarslysum og vera kann að þessi sannfæring og ranghugmynd um eigin hæfni hafi þar áhrif. 

Því meira sem viðkomandi ekur því sannfærðari er hann um eigin hæfni til aksturs. Einnig telja bílstjórar sem hafa aukin ökuréttindi sig hæfari ökumenn en þeir sem hafa ekki aukin ökuréttindi. 72% þeirra telja sig yfir meðallagi og þar af 21% langt yfir meðallagi,“ segir í umfjöllun um könnunina á vefsetri Samgöngustofu.

mbl.is