Nýr Mazda jeppi

Eina myndin sem Mazda hefur sent frá sér af nýja …
Eina myndin sem Mazda hefur sent frá sér af nýja jeppanum sem frumsýndur verður í Genf.

Mazda mun kynna nýjan jeppa á bílasýningunni í Genf í næsta mánuði og síðan mun japanski bílsmiðurinn bjóða upp á hann í Evrópu til viðbótar CX-5 og CX-3.

Lítið hefur verið látið uppi um nýja bílinn. Gefið er þó til kynna að um sé að ræða smájeppa. Hann er hannaður á forsendum svonefnds Kodo hönnunarmáls. 

Hægt verður að velja úr nýjum og misjafnlega öflugum svonefndum skyactiv vélum.

Þá mun Mazda í Genf frumsýna nýjan Mazda3 í Evrópu, en sá bíll var heimsfrumsýndur á bílasýningunni í  Los Angeles síðastliðið haust. Hann er búinn Skyactiv-X vélum með svokallaðri  SPCCI innspýtingu, eins og nýi jeppinn.

Þá mun Mazda fagna 30 ára afmæli MX-5 roadstersins í Genf með sýningu á sérstakri afmælisútgáfu af þeim vinsæla bíl. Hann birtist fyrst á bílasýningunni í Chicago árið 1989. MX-5 er vinsælasti roadster sögunnar en bíll þessi hefur selst í á aðra millljón eintaka, þar af um 350.000 í Evrópu.

mbl.is