Appelsína úr Hveragerði

Hinn skærliti bíll Hjálparsveitar skáta í Hveragerði hefur þegar verið …
Hinn skærliti bíll Hjálparsveitar skáta í Hveragerði hefur þegar verið notaður í útkall og brást ekki vonum. mbl.is/Sigurður Bogi

Daginn er farið vel að lengja, snjór er yfir öllu bæði í byggð og uppi á hálendinu og því er kominn fiðringur í fjallamenn. Til þess að koma sér í gírinn og fá tilfinningu fyrir tækjunum mættu margir á hina árlegu jeppasýningu Toyota sem haldin var í Garðabæ á laugardag.

Þar gaf að líta margar gerðir jeppa frá framleiðandanum, en einnig ýmis torfærutæki auk þess sem valkostir í fjallaferðum voru kynntir. Eitt af því sem mikla athygli vakti á sýningu Toyota var nýr Land Cruiser 150 GX í eigu Hjálparsveitar skáta í Hveragerði. Sannarlega eru margar björgunarsveitir á landinu með bíla þeirrar gerðar í sínum flota, en nýmælið er að Hveragerðisjeppinn er appelsínugulur.

Til þessa hafa bílar björgunarsveitanna yfirleitt verið hvítir, en á næstunni koma á götuna bílar í þessum skæra lit sem tilheyra sveitunum á Selfossi og Flúðum. Er þá filma lögð yfir og bílarnir þannig færðir í réttan búning.

Verða sýnilegri

Bragi Jónsson hugar að tölvu björgunarsveitarbílsins.
Bragi Jónsson hugar að tölvu björgunarsveitarbílsins. mbl.is/Siguður Bogi


„Að björgunarsveitarbílar séu í þessum skæra lit gerir þá sýnilegri til dæmis í snjó og ófærð. Einnig held ég að nú verði auðveldara að sjá út úr bílnum og fram yfir skærlitað húddið þegar framundan er iðandi stórhríð,“ segir Bragi Jónsson varaformaður sveitarinnar í Hveragerði.

„Við Hvergerðingar þurfum oft á Hellisheiði á vetrum til að sinna þar aðstoð við ökumenn sem þar hafa fest sig. Ég hef tröllatrú á bílnum í slík dæmi. Mér finnst líka sennilegt að bílar björgunarsveitanna í landinu verði fleiri settir í appelsínugulan lit á næstu árum,“ segir Bragi Jónsson, varaformaður sveitarinnar.

Tekinn til kostanna

Þessir vilja fara í vélsleðaferð á næstunni.
Þessir vilja fara í vélsleðaferð á næstunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Hinn nýi Land Cruiser 150GX er árgerð 2018; og hefur kallmerkið Víkingur 3. Bíllinn var tekinn til kostanna hjá jeppaþjónustunni Breyti svo undir hann mætti setja 42 tomma dekk sem eru sérskorin og henta því við erfiðar aðstæður. Bíllinn er með auka-bensíntanki, driflæsingar að framan og aftan, sex vinnuljósum á toppgrind, spilbúnaði og VHF og Tetra-talstöðvum. Þá er bíllinn með tengibúnaði inn á netið, en stafræn samskipti skipta í dag afar miklu máli við björgunaraðgerðir. Á næstu dögum verður sett upphækkað gólf í afturenda jeppans og undir því verða skúffur þar sem koma má fyrir ýmsum búnaði. Á gólfið verður svo hægt að setja sjúkrabörur sem liggja beinar þegar sæti hafa verið felld niður.

Kominn á götuna kostar jeppinn um 22 milljónir króna – og ber þá að tiltaka að á móti kemur lækkun á ýmsum opinberum gjöldum sem björgunarsveitirnar njóta við bílakaup.

Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir ákvörðun hafa verið tekna um að bílar björgunarsveitanna verði appelsínugulir í framtíðinni. Ákvörðun um slíkt sé hjá hverri sveit og forystunni þar. Þó hafi sú lína verið lögð að endurskin og merki félagsins á bílunum séu í samræmdum stíl sem hafi haldist.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: