Spanað á stafrænum tryllitækjum

Sigríður Elva á bak við stýrið. Keppendur eiga auðvelt með …
Sigríður Elva á bak við stýrið. Keppendur eiga auðvelt með að gleyma stað og stund við aksturinn, og þurfa heldur betur að vanda sig. mbl.is/Árni Sæberg

Það getur verið erfitt að vera mótorhaus á Íslandi. Að minnsta kosti af þeirri sort sem hefur gaman af hraðskreiðum bílum. Hraðatakmarkanir, holóttir vegir, villuráfandi sauðfé og óútreiknanlegir ökumenn bílaleigubíla gera það að minnsta kosti að verkum að ekki er ráðlegt að spretta úr spori á vegum úti. Og þó finna megi fyrirtaks akstursbraut í Kapelluhrauni glíma menn þar við sama vandamál og aðrir landsmenn: hálku, snjó og önnur almennt óspennandi veðurskilyrði drjúgan hluta ársins.

Lausnin fundin

Hinrik segir kappaksturshermana nýtast vel við þjálfun akstursíþróttafólks.
Hinrik segir kappaksturshermana nýtast vel við þjálfun akstursíþróttafólks. mbl.is/Árni Sæberg


Nú er hinsvegar kominn öruggur staður til að þjálfa bensínfótinn og það án þess að þurfa að fá samviskubit yfir bensíneyðslu, spæna upp dekkin sín eða eiga á hættu að missa prófið. GT Akademían opnaði formlega í desember, en þar er boðið upp á kappakstur í ökuhermum. Kappaksturslið víða nota slíkan búnað til æfinga, en akstur í hermi er nær óaðgreinanlegur frá akstri í raunheimum. Sæti þeirra hreyfast til að líkja eftir akstri í alvöru kappakstursbíl og ökumaður finnur fyrir því þegar tekið er af stað, bremsað, beygt, þegar dekk missa grip, keyrt er yfir kanta, eða sem verra er - beint á næsta vegg, með tilheyrandi hristingi og hamagangi. Það er nefnilega auðvelt að verða svolítið kærulaus og strauja í krappa beygju á mannmorðshraða vitandi að maður er ekki að hætta lífi og limum.

Hermarnir eru frá fyrirtækinu SimXperience og keyra forritið Project Cars 2, sem býður upp á ýmsar tegundir mótorsports, til að mynda formúlu, GT og rally cross. Í forritinu er hægt er að keyra margar af þekktustu aksturbrautum heims, sem eru flestar „leiser-skannaðar" stafrænar eftirlíkingar nánast upp á millimetra.

Þá býður tæknin upp á að setja upp mismunandi veðurskilyrði og æfa akstur í rigningu, hálku og á ís. 180 ólíkir bílar úr hinum ýmsu tegundum akstursíþrótta eru í boði í herminum og haga sér misjafnlega eftir gerð, en forritið líkir eftir eiginleikum hvers bíls fyrir sig.

Hægt er að stilla bílana á sama hátt og gert er í raunheimum, svo sem gera dempara stífari eða mýkri, lækka eða hækka hæð undir bíl, stilla þrýsting í dekkjum og þess háttar.

Ofsaakstur á Nürburgring

Hinrik Haraldsson, stofnandi GT Akademíunnar, við kort af erfiðum Nurburg-hringnum.
Hinrik Haraldsson, stofnandi GT Akademíunnar, við kort af erfiðum Nurburg-hringnum. mbl.is/Árni Sæberg


Ég ákvað að fara nokkra hringi á Nürburgring í Porsche 911 GT3, eins og maður gerir svo gjarnan. Þó hermirinn sé vissulega afskaplega líkur því að keyra í venjulegum bíl eru nokkrir hlutir sem tekur tíma að venjast. Tilfinning fyrir hraða var til að mynda afar takmörkuð í fyrstu, og öryggistilfinningin sem fylgir því að vita að maður er í tölvuleik en ekki á vegi úti gerði það líka að verkum að ekið er töluvert greiðar en aðstæður leyfa. Að minnsta kosti tókst mér að láta áberandi viðvaranir forritsins um að ökuhraði væri engan veginn raunhæfur fyrir næstu beygju sem vind um eyru þjóta og endaði þó nokkrum sinnum úti í móa fyrir vikið.

Eftir vinalegar ábendingar starfsmanna um að gott sé að keyra herminn eins og maður sé í kappakstri en ekki kamikaze-árás gekk þó mun betur, og auðvelt er að ímynda sér að þjálfun í herminum nýtist þegar komið er út á alvöru braut.

Þjálfun og skemmtun

Fjórir bílhermar í GT Akademíunni í Ármúla.
Fjórir bílhermar í GT Akademíunni í Ármúla. mbl.is/Árni Sæberg


Akstursíþróttamenn nýta hermana til að æfa sig og halda sér í formi, en svo eru þeir líka til sem halda sig alfarið við stafrænan akstur. Keppt er í honum víða um heim, og GT Akademían stefnir á að halda fjölda móta hérlendis á árinu, til að mynda Íslandsmeistaramót í hermi-kappakstri í samvinnu við Kvartmíluklúbbinn og Akstursíþróttasamband Íslands, auk minni „skemmti-kappakstra“ yfir árið þar sem keppt verður í mismunandi akstursíþróttagreinum.

Þá verða hermarnir nýttir í kennslu og þjálfun, til að mynda hefst í dag 10 vikna kappakstursnámskeið í Akademíunni fyrir ungmenni á aldrinum 11 – 18 ára, með það að markmiði að nemendur verði undirbúnir undir þáttöku í hermi-kappakstursviðburðum um víða veröld á netinu.

Maður þarf reyndar alls ekkert að stefna á keppni til að hafa gaman af því að fara nokkra hringi í aksturshermi. Þeir eru til að mynda vinsælir hjá vinnustaðahópum og í gæsa- og steggjapartýum, enda hin besta skemmtun. Ég hefði að minnsta kosti persónulega getað varið öllum deginum, og nokkrum í viðbót, í að keyra stafræn trylllitæki á frægustu brautum heims.

Við hraðakstur í krefjandi braut vilja ökumenn hitna og svitna. …
Við hraðakstur í krefjandi braut vilja ökumenn hitna og svitna. Kemur hanskalagerinn þeim í góðar þarfir. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: