Infiniti dregur sig út úr Evrópu

Infiniti QX Inspiration hugmyndabíllinn.
Infiniti QX Inspiration hugmyndabíllinn.

Japanski lúxusbílasmiðurinn Infiniti hefur ákveðið að hætta bílasölu í Vestur-Evrópu og einblína í staðinn á markaði í Norður-Ameríku og Kína.

Infiniti ætlar að ljúka allri starfsemi sinni í V-Evrópu á næstu tólf mánuðum. Bílsmiðurinn mun áfram halda úti sölustarfsemi í Austur-Evrópu, Asíu og Miðausturlöndum auk Norður-Ameríku og Kína.

Áfram vinnur lúxusbílsmiðurinn að því að rafvæða bílalínu sína, á þeim áætlunum verður engin breyting. Ný módel frá og  með 2021 verða boðin sem tvinnbílar eða hreinir rafbílar. Þó verður hinn stóri jeppi QX80 hugsanlega ekki boðinn sem rafbíll.

Ástæðan fyrir hreppaflutningum Infiniti er að lúxusmerkið hefur ekki náð nægri fótfestu og er ekki lífvænlegt í Vestur-Evrópu. Fyrirtækið hóf starfsemi í Evrópu 2008 en náði aldrei flugi. Á tólf árum hefur það einungis selt um 60.000 bíla í Evrópu, þar af 10.000 í Bretlandi. Framleiðslu á módelunum Infiniti Q30 og QX30 verður hætt í bílsmiðjunni í Sunderland í júlí í sumar.   

Infiniti QX50 árgerð 2019.
Infiniti QX50 árgerð 2019.
mbl.is