Bugatti fyrir fjöldann

Bugatti Baby II fer í framleiðslu í haust.
Bugatti Baby II fer í framleiðslu í haust.

Franski bílsmiðurinn Bugatti kynnti í síðustu viku um smíði dýrasta bíls heims, Bugatti La Voiture Noire, sem kostaði tæplega tvo tugi milljarða króna.

En það var ekki nóg því Bugatti skýrði jafnframt frá áformum að minnast 110 ára afmælis síns með því að ráðast í smíði nokkurs konar alþýðubíls. Sem fengist á margfalt lægra verði, eða einungis fyrir um 30.000 evrur, eða fjórar milljónir króna.

Afmælisbíllinn Bugatti Baby II er þó fremur hugsaður sem farartæki fyrir börn en fullorðna. Um hreinan rafbíl er að ræða en hann var að finna á bás Bugatti á bílasýningunni í Genf.

Bugatti Baby II er helgaður minningu hins upphaflega Baby sem stofnandinn Ettore Bugatti smíðaði fyrir yngsta son sinn og gaf honum í afmælisgjöf er hann varð fjögurra ára 1926.

Sá bíll var byggður í sömu hlutföllum og hinn frægi kappakstursbíll Type 35 en helmingi minni. Hann varð svo vinsæll að Bugatti komst ekki hjá því að hrinda fjöldaframleiðslu hans í framkvæmd. Voru um 500 eintök smíðuð á árunum 1927 til 1936.

Verður smíði hins nýja Baby II takmörkuð við 500 eintök. Hann verður aðeins stærri, eða smíðaður í 3/4 hlutföllum Type 35 sem smíðaður var fyrir franska Grand Prix kappaksturinn 1924. Grindin verður þrívíddarprentuð og rafmögnuð aflrás bílsins verður 13 hestafla og hámarkshraði í barnastillingu 20 km/klst. Stilla má aflrásina fyrir fullorðinn með 45 km/klst hraða að hámarki.

Framleiðsla Bugatti Baby hefst í haust og er ekki við öðru búist en að eintökin 500 renni út eins og heitar lummur og verði að safngripum.

Nær er hinn upphaflegi Bugatti Baby og fyrir aftan Baby …
Nær er hinn upphaflegi Bugatti Baby og fyrir aftan Baby II sem smíðaður verður í 500 eintökum frá og með haustinu.
Bretinn Robert Spencer á ferð í Le Mans á Bugatti …
Bretinn Robert Spencer á ferð í Le Mans á Bugatti Type 35 B í fyrra. AFP
Frakkinn Philippe Champeroux á ferð á Bugatti Type 51 frá …
Frakkinn Philippe Champeroux á ferð á Bugatti Type 51 frá 1931 í árlegum fornbílakappakstri í Le Mans í Frakklandi í fyrra, 2018. AFP
Bugatti Baby II í góðum félagsskap stallbróður síns Bugatti Chiron.
Bugatti Baby II í góðum félagsskap stallbróður síns Bugatti Chiron.
mbl.is