Tesla setur nýtt sölumet rafbíla í Noregi

Tesla Model 3
Tesla Model 3

Sala á rafbílnum Tesla Model 3 í Noregi í mars virðist hafa slegið fyrra sölumet rafbíla í landinu. Þá miðað við sölu í einum mánuði.

Rafbílar frá Tesla hafa selst vel í Noregi. Það leynir sér ekki þegar ferðast er um Ósló en um síðustu helgi voru slíkir bílar einna algengastir í umferðinni. Við Filipstadbryggju, skáhallt á móti Akerbryggju, mátti sjá hundruð Tesla-bíla sem biðu afhendingar.

Fyrra sölumetið á rafbílum í einum mánuði í Noregi var sett í mars 2018 þegar alls seldust 2.172 eintök af nýjum Nissan LEAF og 216 notaðir slíkir bílar, alls 2.388 LEAF-bílar.

Fjallað er um málið á vef Nettavisen en heimildin er vefsíðan Elbilstatistikk.no.

Fram kom á mbl.is í janúar að LEAF var söluhæsta bílamódelið í Noregi í fyrra. Þá voru nýskráð 12.303 eintök. Um 148 þúsund nýir bílar seldust í Noregi í fyrra, helmingurinn rafbílar og tengiltvinnbílar.

Metið virðist vera fallið

Samkvæmt áðurnefndri vefsíðu, Elbilstatistikk.no, hafa selst 2.454 eintök af Teslu Model 3 í mars sem bendir til að sölumetið sá fallið.

Til samanburðar hafa selst 553 eintök af rafknúnum Volkswagen Golf, 420 eintök af Nissan LEAF og 283 eintök af BMW I3 í mars.

Blaðamaður Nettavisen leitaði til Tesla eftir staðfestingu á sölutölum um miðjan mánuðinn en fyrirtækið tjáði sig ekki um söluna.

Nissan LEAF er söluhæsti rafbíllinn í sögu Noregs en selst hafa um 52.500 eintök af bílnum. Til samanburðar hafa selst um 34.500 eintök af Tesla-bílum í landinu.

Samkvæmt vefnum Elbil.no höfðu um síðustu áramót selst um 200 þúsund rafbílar í Noregi og tæplega 100 þúsund tengiltvinnbílar. Til samanburðar höfðu selst rúmlega 40 þúsund slík ökutæki árið 2014. Segir þar jafnframt að árið 2018 hafi hlutur rafbíla í sölunni verið 30% í Noregi.

Model 3 mikilvægt skref

Fram kemur í umfjöllun viðskiptavefjarins Bloomberg að sala á Tesla-rafbílum hafi stóraukist í nokkrum Evrópulöndum eftir að Model 3 kom á markað, nánar tiltekið í Þýskalandi, Sviss, Hollandi og Noregi. Markaðssetning Model 3, fyrsta Tesla-bílsins fyrir hinn almenna markað, sé mikilvægt skref fyrir fyrirtækið. Það þurfi að geta sýnt fram á að geta skilað hagnaði.

Á vef Bloomberg segir jafnframt að fyrstu níu mánuðina í fyrra hafi Noregur verið fjórði stærsti markaður Tesla í heiminum á eftir Hollandi, Kína og Bandaríkjunum.

Á vef Tesla segir að Model 3 hafi 350 km drægni og að grunnverðið sé 35 þúsund bandaríkjadalir áður en ívilnanir reiknast með. Rafbílavæðingin í Noregi skapar tækifæri fyrir Arctic Trucks eins og fjallað er um á bls. 28-29 í Morgunblaðinu í dag.

Tesla horfir til Íslands

Fram hefur komið að Tesla hyggst hefja sölu rafbíla á Íslandi. Hefur meðal annars verið fundað um innviði hér á landi.

Á vefsíðunni bílainnflutningur.is er Tesla Model 3 auglýst til sölu. Fyrstu bílarnir verða afhentir í þessum mánuði en fyrsta sending verður með langdrægri rafhlöðu, fjórhjóladrifi og vandaðri innréttingu. Auglýst verð er 7,92 milljónir en miðað er við að evran kosti 139 krónur. Miðgengi er nú 133 kr.

Á vef Tesla segir að Model 3 fylgi meðal annars 15 tommu snertiskjár, lyklalaus aðgangur og raddstýring. Átta öryggispúðar eru í bílnum.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »