Tesla boðar rafknúinn sportjeppa

Nýi Tesla jeppinn kemur á götuna 2021.
Nýi Tesla jeppinn kemur á götuna 2021.

Tesla tilkynnti fyrir helgi að fyrirtækið myndi koma með nýjan bíl, Model Y, á markað eftir tvö ár. Muni hann búa yfir sama notagildi og jeppar en teljast fremur sportbíll.

Til marks um sportlegheit Model Y mun hann einungis þurfa 3,5 sekúndur til að komast í hundraðið úr kyrrstöðu, sagði Elon Musk er hann kynnti bílinn sl. föstudag.

Í ódýrustu útgáfu rafbílsins Model Y verður drægið 370 kílómetrar en 483 km í dýrari útgáfu. Þessi smái en knái sportjeppi mun vera um 10% stærri að málum en Tesla Model 3 og 75% íhluta Model Y eru hinir sömu og í Model 3.

Framleiðsla í bílsmiðjum Tesla hefur verið brösug og ekki náð þeim afköstum sem að var stefnt. Mesuk sagði á Twitter að undir árslok ættu afköstin að vera komin í 10.000 bíla á viku.

Kemur hann á götuna vorið 2021.

Tesla kynnti í síðasta mánuði áform um að loka bílasölum og einblína á sölu á netinu í staðinn. Vart var blekið þornað á pappírunum er fyrirtækið kúventi. Hefur það ákveðið að loka aðeins helmingnum af bílasölunum sem samkvæmt fyrri ákvörðun áttu að fara undir hnífinn.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: