Renault Clio IV í efsta sæti

Renault Clio var söluhæsti bíllinn í Frakklandi í fyrra og ...
Renault Clio var söluhæsti bíllinn í Frakklandi í fyrra og einnig fyrstu þrjá mánuðina 2019.

Renault Clio IV er langvinsælasti bíllinn í Frakklandi á fyrsta fjórðungi ársins 2019. Deila frönsku bílrisarnir Renault, Peugeot og  Citroen fyrstu þremur sætunum. 

Af Clio fóru 36.438 eintök sem er 6,6% hlutdeild í heildarsölunni. Í öðru sæti varð Peugeot 208 með 27.791 eintök, eða 5% hlutdeild. Og í þriðja Citroen C3 III sem fór í 21.976 eintökum, sem er 4% hlutdeild.

Alls voru 553.335 bílar nýskráðir frá áramótum til marsloka í Frakklandi sem er 0,6% samdráttur miðað við sama tímabil fyrir ári, en 0,9% aukning miðað við fjölda opnunardaga bílaumboða. Voru þeir 63 í ár en voru 64 í fyrra.  

Hvað einstaka framleiðendur varðar sótti Citroen mjög í sig veðrið með samtals 61.226 nýskráningar sem er 10,3% aukning frá í fyrra. Opel bætti sig  um 13,2% með 20.995 eintaka sölu, Hyundai bætti sig um 13,7% með 9,602 eintökum og Skoda 11,8% með 8.006 bílum.

Mest jók hins vegar Volvo við sig, seldi 5.466 bíla á fjórðungnum sem er 19,4% aukning frá í fyrra.

Hér má svo sjá lista yfir tíu söluhæstu bílana í Frakklandi frá áramótum til 31. mars sl., en í svigum er hlutdeild viðkomandi módels í heildarsölunni:

1 - Renault Clio IV : 36.438 (6,6%)

2 - Peugeot 208 : 27.791 (5%)
3 - Citroen C3 III : 21.976 (4%)
4 - Renault Captur : 20.033 (3,6%)
5 - Peugeot 3008 II : 19.492 (3,5%)
6 - Dacia Sandero : 17.100 (3,1%)
7 - Peugeot 2008 : 16.592 (3%)
8 - Peugeot 308 II : 14.787 (2,7%)
9 - Dacia Duster II : 13.777 (2,5%)
10 - Citroen C3 Aircross : 13.692 (2,5%)

mbl.is