Subaru með besta öryggisbúnaðinn

Subaru XV.
Subaru XV.

Samkvæmt niðurstöðu nýrrar könnunar helsta greiningarfyrirtækis Bretlands á bílamarkaði, Driver Power Survey, er það mat bíleigenda á Bretlandsmarkaði sem tóku þátt í könnuninni að Subaru sé besti bílaframleiðandi ársins þegar kemur að þróun öryggisbúnaðar fyrir bíla.

Þá er Subaru jafnframt í 6. sæti yfir tíu bestu bílaframleiðendur heims, að því er fram kemur í tilkynningu.

Í könnuninni var spurt um öryggisbúnað 29 annarra bílaframleiðenda og fengu allir jepplingarnir þrír, Outback, XV og Forester, háa einkunn fyrir öryggisbúnað. Forester var í öðru sæti í mati á öryggisbúnaði borið saman við búnað 100 annarra bíltegunda í sama flokki, XV í því fimmta og Outback í ellefta í mati á eitt hundrað bíltegundum og gerðum.

Steve Fowler, ritstjóri hjá Auto Express UK, sagði þegar niðurstöður könnunarinnar voru kynntar að öryggiskerfið EyeSight bæri vott um mikinn metnað framleiðandans á öryggissviði. „Á þessu ári hafa lofsyrði eigenda Subaru um EyeSight verið mjög áberandi og í nýjustu könnun okkar er Subaru í 1. sæti á sviði öryggisbúnaðar, ofar en aðrir og stærri framleiðendur,“ sagði Fowler.

EyeSight öryggiskerfið byggir á greiningu myndavéla sem senda þrívíðar litmyndir til bíltölvu sem kennt hefur verið að bera kennsl á lögun hluta og greina hraða og fjarlægðir með nær sömu nákvæmni og mannsaugað býr yfir. EyeSight gerir greinarmun á gangandi vegfarendum, reiðhjólum, mótorhjólum og bílum auk þess að skynja hemlaljós svo eitthvað sé nefnt.

mbl.is