Frá Kanarí til Kóreu á Konu

Chang-Hyun Moon við farkost sinn, rafbílinn Hyundai Kona.
Chang-Hyun Moon við farkost sinn, rafbílinn Hyundai Kona.

Á Kanaríeyjum býr ungur byggingarverkfræðingur, ættaður frá hafnarborginni Busan í Suður-Kóreu, sem hyggst „klára heimsreisu“ föður síns sem sigldi frá Busan einn síns liðs til Spánar fyrir um fjörutíu árum og ílentist þar þótt ætlunin hefði verið að sigla umhverfis jörðina aftur heim.

Nú ætlar Chang-Hyun Moon, sonur Yuna, að klára ferðalag föður síns með táknrænum hætti með því að aka heim til Kóreu frá Kanaríeyjum á rafbílnum Hyundai Kona. Með í för verða ökumenn á rafbílnum Hyundai Ioniq EV og rafknúna vetnisbílnum Nexo.

Yuna var á yngri árum sjómaður á litlum fiskibáti og bjó og gerði út frá hafnarborginni Busan við suðausturhluta Kóreuskaga. Í honum blundaði þráin um að skoða heiminn og heimsækja fjarlæg lönd. Hann lét drauminn rætast. Dag einn leysti hann landfestar á bát sínum og lagði út á Japanshaf, þaðan út á opið Kyrrahafið og allt til Panama þar sem hann sigldi um Panamaskurðinn út á Atlantshaf þar sem hann tók stefnuna á Kanaríeyjar. Þar hugðist hann hvíla sig vel enda hálfnaður með hnattferðina. En örlögin höguðu því svo til að ferðin varð ekki lengri og hefur hann búið þar síðan.

Um hálfan hnöttinn á rafbíl

Nú hefur sonurinn Chang-Hyun Moon, sem er byggingarverkfræðingur á Kanaríeyjum, ákveðið að klára ferðalag föður síns og til þess hefur hann fengið afnot af mengunarlausum rafbíl af gerðinni Hyundai Kona EV sem umboðið á eyjunum hefur lánað honum til fararinnar. Moon leggur af stað til Busan á morgun, miðvikudaginn 15. maí. Af eðlilegum ástæðum mun hann ekki þurfa að kaupa einn lítra af jarðolíueldsneyti á leiðinni, þá 17 þúsund kílómetra sem hann þarf að aka til Busan, að því er segir í tilkynningu um ferðalag þetta.

Fyrir umhverfið

Markmið Hyundai Motor Company með því að lána Kona EV í ferðalagið er að sýna að rafbílar eru ekki lengur fyrirstaða til langferða um leið og fyrirtækið vill taka undir með loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðunum með því að leggja áherslu á mikilvægi umhverfismildra ökutækja til að draga úr mengun og bæta loftgæði í þeirri von að unnt sé að draga úr hlýnun jarðar.

„Framlag Hyundai á þessu sviði er rík áhersla á þróun og hönnun ökutækja sem byggja á grænum orkugjöfum. Þeirra á meðal eru hreinu rafbílarnir Ioniq EV og Kona EV auk nýjasta græna bílnum, rafknúna vetnisbílnum Nexo, en bæði Ioniq EV og Nexo verða með í för í ævintýraferðinni til Busan,“ segir í téðri tilkynningu. Fararskjóti Moon er búinn 204 hestafla rafmótor og 64Kw/h rafhlöðu sem gerir kleift að aka allt að 449 km á hleðslunni, en hemlakerfið er m.a. hannað til að nýta öll tækifæri til að hlaða aukaorku á rafhlöðuna. Bílnum fylgja mismunandi hleðslutengi, allt eftir aðstæðum í löndunum sem leiðin liggur um.

Heimsækir 20 lönd á leiðinni

Á ferðalaginu ekur Moon um tuttugu lönd; Marokkó, Spán, Gíbraltar, Frakkland, Mónakó, Ítalíu, Sviss, Liechtenstein, Þýskaland, Austurríki, Ungverjaland, Slóveníu, Króatíu, Tékkland, Pólland, Litháen, Lettland, Rússland, Kasakstan og til Kína, þar sem hann á langa ferð fyrir höndum áður en hann kemur að landamærum Kóreu. Þá hefst síðasti leggurinn, ökuferðin suður Kóreuskaga þar til komið er heim til æskuheimkynna Yuna í Busan. Moon stefnir að því að koma þangað eftir tvo mánuði eða um miðjan júlí.

Á vegi Moon og félaga verða ólíkir heimshlutar og loftslag frá náttúrunnar hendi, ólíkir menningarheimar, hefðir og saga. Þótt fjarlægðin skilji að Kanarýeyjar og Kóreu eru tengslin þó sterk því fjöldi Kóreumanna fluttist búferlum til Evrópu að lokinni síðari heimsstyrjöld. Margir settust að á Kanaríeyjum og í áranna rás hafa myndast sterk vináttubönd milli landanna.

mbl.is