Askja og ON í samstarf

Fulltrúar Öskju og ON undirrituðu samstarfssamning á dögunum.
Fulltrúar Öskju og ON undirrituðu samstarfssamning á dögunum.

Bílaumboðið Askja hélt fræðslufyrirlestur á dögunum um rafmagnaða framtíð Mercedes-Benz. Sérfræðingur frá fyrirtækinu kynnti EQC og framtíð Mercedes-Benz rafbíla.

Fjallað var um framtíð rafbílavæðingarinnar á Íslandi og sérfræðingar frá ON og hlada.is héldu stutt erindi um hleðslulausnir og þjónustu fyrir rafbíla. Rúmlega 100 manns mættu á viðburðinn sem fékk góðar undirtektir hjá gestum og greinilega mikill áhugi fyrir framtíð rafbíla á Íslandi, að því er segir í tilkynningu um ráðstefnugesta.

Askja og Orka náttúrunnar undirrituðu við þetta tækifæri samstarfssamning þar sem fyrirtækin skuldbundu sig til að vinna saman að fræðslu til almennings um orkuskipti, rafbíla og framtíð í samgöngum. Í samstarfssamningnum felst að á árinu 2019 fá kaupendur á Mercedes-Benz EQC fría hraðhleðslu í 6 mánuði með ON lykli sem gengur að öllum hraðhleðslustöðvum fyrirtækisins. Einnig mun það veita EQC eigendum nauðsynlegar upplýsingar sem varða hleðslu og öryggi rafbíla. Hraðhleðslustöðvar verða settar upp hjá Öskju í samvinnu við ON.

Mercedes-Benz hóf á dögunum sölu á sportjeppanum EQC sem er fyrsti bíllinn sem kemur á markað í hinni nýju EQ rafbílalínu þýska lúxusbílaframleiðandans. EQC hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu og hefur sala á bílnum farið vel af stað.

mbl.is