Með bestu drifrásina og besta rafmótorinn

Jaguar I-Pace
Jaguar I-Pace

Heimsbíll ársins, rafbíllinn I-Pace frá Jaguar, hlaut í vikunni þrenn helstu verðlaun tímaritsins Engine Technology International, eða  „drifrás ársins 2019“, „besti nýi rafmótorinn“ og „besta vélin í flokki 350 til 450 hestafla“

Viðurkenningarnar voru afhentar á verðlaunahátíðinni „The International Engine + Powertrain of the Year Awards“ sem fram fór í Stuttgart í Þýskalandi.

Í dómnefnd verðlaunanna sátu 70 bílablaðamenn frá 31 landi þar sem tekið var tillit til helstu sérkenna í hönnun vélar og drifrásar, svo sem frammistöðu, afkasta, orkunýtni og nákvæmni.

„Titlarnir þrír sem I-Pace hlaut á sýningunni endurspegla framúrskarandi hátækni vélarinnar sem framleiðir engar gróðurhúsalofttegundir,“ segir í tilkynningu.

4,5 sekúndur í hundraðið

I-Pace er fjórhjóladrifinn fimm manna sportjeppi með tvo rafmótora, einum við hvorn ás, og 90kW rafhlöðu sem unnt er að hlaða frá 0-80% á innan við 45 mínútum. Bíllinn er um 400 hestöfl og skila mótorarnir 696 Nm togi. Er I-Pace einungis 4,5 sekúndur að ná 100 km hraða frá kyrrstöðu en 90% orku rafmótoranna skila sér beint út til hjóla; 50%-60% betur en orka bensín- eða dísilvéla.

Mesta vegalengd sem unnt er að aka I-Pace á rafhlöðunni er um 470 km samkvæmt nýja mælistaðlinum WLTP.

Margvísleg hátækni I-Pace

„Sem dæmi um tækni I-Pace má nefna að þegar I-Pace er stungið í samband við hleðslustöð fer ákveðið kerfi í gang sem stillir hita rafhlöðunnar á rétt stig til að hámarka mögulegt orkumagn inn á rafhlöðuna og þar með þá vegalengd sem framundan er. Einnig er varmadæla í I-PAce sem fangar orku úr andrúmsloftinu utan bílsins sem nýtt er í miðstöðvarkerfi bílsins til að spara orku af rafhlöðunni. I-Pace getur jafnvel nýtt varma af drifrás bílsins og beint varmanum til miðstöðvarinnar þar sem hún nýtist til hitunar,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Heimsbíllinn til afgreiðslu strax

Jaguar Land Rover við Hestháls hóf nýlega afhendingar á I-Pace, en Ísland hefur skipað sér sess sem einn af miklvægustu rafbílamörkuðum Evrópu vegna eftirspurnar hér heima. Því tókst Jaguar á Íslandi að tryggja sér viðunandi fjölda bíla til afgreiðslu á yfirstandandi ári ásamt reynsluakstursbílum sem eru til taks við Hestháls.

mbl.is