Risavaxið bílaveldi tekur á sig mynd

John Elkann (v.), stjórnarformaður FCA, og Jean-Dominique Senard, forstjóri Renault, …
John Elkann (v.), stjórnarformaður FCA, og Jean-Dominique Senard, forstjóri Renault, náðu vel saman. AFP

Markaðurinn tók því heldur betur vel þegar upplýst var í byrjun vikunnar að bílarisarnir Fiat Chrysler og Renault hygðu á samruna. Hlutabréfaverð Fiat tók 19% kipp í kauphöllinni í Mílanó og Renault rauk upp um 16%.

Tókst að halda samrunaþreifingunum leyndum allt þar til um síðustu helgi, að blaðamaður Reuters fékk pata af viðræðunum, en fyrr á árinu hafði FT sagt frá að risarnir tveir hygðust koma á nánu samstarfi til að geta betur tekist á við krefjandi aðstæður á bílamarkaði á heimsvísu. Áður en hlutabréfaverðið hækkaði á mánudag var samanlagt markaðsvirði FCA og Renault um 33 milljarðar evra, eða jafnvirði u.þ.b. 4.580 milljarða króna. Félögin selja árlega um 8,7 milljónir ökutækja um allan heim og inniheldur bílaframboð þeirra merki á borð við Alpine, Dacia, RAM, RSM, Alfa Romeo, Dodge, Chrysler, Jeep og Maserati.

Þá á Renault liðlega 43% hlut í japanska bílaframleiðandanum Nissan.

Trukkar og rafbílar mætast

Fyrirtækin þykja falla prýðilega hvort að öðru: FCA stendur vel að vígi í Norður-Ameríku þar sem ökumenn hafa mikið dálæti á RAM- og Jeep-pallbílum og -jeppum. Í Evrópu hefur FCA hins vegar gengið misvel, og átt í mesta basli með að reka starfsemi sína með hagnaði. Eru verksmiðjur FCA í Evrópu að nýta aðeins 50% af framleiðslugetu sinni, að sögn Reuters, og hafa fjárfestar óttast að FCA eigi eftir að ganga illa að halda í við æ strangari útblásturskröfur evrópskra stjórnvalda.

Renault, aftur á móti, hefur náð langt í þróun rafbíla og sparneytinna bensínvéla, og náð ágætis fótfestu í mörgum nýmarkaðslöndum – en ekki numið land í Bandaríkjunum svo nokkru nemi.

Eftir sitja PSA Group (Peugeot, Citroën, Opel o.fl.), og Nissan með sárt ennið. Vitað var af þreifingum á milli FCA og PSA, og Renault hafði lýst áhuga á að sameinast Nissan en fyrirtækin hafa starfað náið saman í tvo áratugi. Heimildir Reuters herma að samruni Renault og FCA útiloki þó ekki endilega að tengslin við Nissan verði líka styrkt. Jean-Dominique Senard, forstjóri Renault, segir líka inni í myndinni að hafa Mitsubishi innanborðs. Er þó ljóst að samruni Renault og FCA verður samt stór biti að kyngja og reiknað með að stjórnvöld og stéttarfélög á Ítalíu vilji hafa einhverja fyrirvara á samrunanum. Verði Nissan með myndu fyrirtækin saman mynda stærsta bílaframleiðanda heims, með 13,8 milljónir seldra bifreiðar árlega. Annars búa sameinaðir kraftar FCA og Renault til þriðja stærsta bílaframleiðanda heims, miðað við fjölda seldra bíla, á eftir Toyota og Volkswagen.

Ghosn og Marchionne skildu eftir tómarúm

Jean-Dominique Senard stjórnarformaður Renault.
Jean-Dominique Senard stjórnarformaður Renault. AFP


Margir þræðir komu saman til að gera samrunann að veruleika. Wall Street Journal bendir á að aðalástæðan fyrir samrunanum sé sami vandi og allir aðrir bílaframleiðendur standi frammi fyrir: samkeppnin verður sífellt harðari, tækniframfarirnar örari og ekki annað í boði en að leita allra leiða til að ná fram meiri stærðarhagkvæmni. Er reiknað með að samruninn muni hafa í för með sér um 5 milljarða dala sparnað árlega.

Þá varð greinilegt að tveir jöfrar bílaheimsins skildu eftir sig stórt gat á síðasta ári: Sergio Marchionne, forstjóri FCA, féll skyndilega frá í júlí síðastliðnum, og skömmu síðar var Carlos Ghosn handtekinn í Japan vegna meints fjármálamisferlis.

Marchionne, sem hafði náð að gera kraftaverk í rekstri Fiat, var annálaður fyrir að vera aðgangsharður samningamaður, sem kann að hafa fælt aðra frá því að vilja hefja viðræður. Ghosn hafði öll tögl og hagldir hjá Renault og vildi mest af öllu sameinast Nissan. Samruni FCA og Renault var skoðaður í tíð Ghosns og Marchionne, en viðræðum miðaði ekki áfram og á Ghosn að hafa verið áhugalítill.

Örlögin réttu keflið áfram til Jean-Dominique Senard, sem þykir prýðilegt eintak af fáguðum og vönduðum erópskum stjórnanda og stýrði áður dekkjaveldinu Michelin, og svo fór hitt keflið til Johns Elkanns, barnabarns iðnjöfursins Gianni Agnelli sem gerði Fiat að stórveldi á sínum tíma.

Elkann og Senard náðu greinilega vel saman og hittust á laun á heimilum sínum. Það sem upphaflega áttu bara að verða þreifingar um nánara samstarf leiddi á endanum til þess að um miðjan maí hófu Elkann og Senard að leggja drög að samruna. Svo lítið bæri á ræddi Senard málið við Emmanuel Macron Frakklandsforseta, en franska ríkið á 15% hlut í Renault. Elkann gat ekki gert slíkt hið sama, enda ríkisstjórn Ítalíu ósamheldin og lek þegar kemur að trúnaðarmálum. Ítalska ríkið á auk þess ekki eina ögn í FCA. Nissan fékk heldur ekkert að vita.

Fá kannski frið

Sumir benda á að ef til vill hafi liðkað fyrir samrunanum að FCA virðist gefa mikið eftir. Þrátt fyrir að FCA standi töluvert betur að vígi í rekstrinum, heilt á litið, þá munu hluthafar fyrirtækjanna skipta hinu sameinaða félagi jafnt á milli sín en hluthafar FCA fá 2,5 milljarða dala eingreiðslu. Kann það að hafa gert Elkann eftirlátssaman að hann hefur lengi viljað reyna að minnka mikilvægi bílaframleiðslu fyrir afkomendur Agnelli og fjárfesta á fleiri sviðum atvinnulífsins. Agnelli-Elkann-ættin hefur fengið meira en nóg af sviðsljósinu og eftir samrunann mun eignarhaldsfélag ættarinnar, Exor NV, eiga 14,5% hlut í sameinuðu félagi en hefur verið ráðandi hluthafi í FCA með 29% hlut. WSJ bendir á að minni hlutur í stærra félagi muni leyfa Elkann og fjölskyldu að hverfa inn fjöldann, og selja eitthvað af hlutabréfum sínum til að fjárfesta annars staðar, án þess að valda miklu umtali.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: